131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[14:21]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er nákvæmlega þetta sem hefur farið eitthvað undarlega í höfuð hv. þm., vegna þess að eitt af því sem ég tók sérstaklega fyrir í ræðu minni um fjáraukalögin, þar sem þetta á auðvitað frekar heima, þ.e. árið í ár, að markmiðin sem hv. þm. er að tala um voru þau að samneyslan mundi aukast um 1% á þessu ári en ekki 2%. (EOK: Nei.) Það voru forsendur fjárlaga ársins 2004. Nú er því hins vegar spáð að hún verði 1,5%, þ.e. 50% fram yfir það. Á næsta ári, í fjárlögum fyrir árið 2005, er hins vegar gert ráð fyrir 2%. Þannig er staða málsins. Það er því eðlilegt að hv. þm. telji allt í lukkunnar velstandi ef samanburðurinn er með þessum hætti.

Síðan er rétt, frú forseti, að minna hv. þm. á að þrátt fyrir að verið sé að sýna fagrar tölur í fjáraukalagafrumvarpi þessa árs eigum við eftir að fá ríkisreikninginn. Ef við skoðum síðustu ár í því tilfelli getum við því miður búist við því að það verði allt önnur niðurstaða en verið er að boða í fjáraukalagafrumvarpinu.