131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[14:33]

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fór hérna yfir greiningu á verðbólgunni vegna þess að ég var að vekja athygli þingheims á því að þegar menn gengu út frá verðbólguspánni fyrir þetta ár, þ.e. í upphafi þessa árs, gátu þeir ekki séð fyrir þessa liði. Þeir gátu ekki áttað sig á því að þessi gríðarlega breyting yrði á olíuverði í heiminum. Það var enginn sem sá það fyrir, hvorki á Íslandi né erlendis. Það átti enginn von á þessum hækkunum.

Við kunnum heldur engin skil á því hvernig stendur á því að fasteignaverð hefur hækkað hér, ekki frekar en menn í Englandi, Danmörku eða Þýskalandi kunna skil á því hvernig stendur á þessum miklu fasteignaverðshækkunum. Það hefur enginn getað skilgreint það. Ég er bara að segja frá því að þarna eru tveir höfuðliðir sem eru frávikið frá því sem við ætluðum og við kunnum ekki skil á því. Við vonum að þetta gangi til baka. Þetta er alls ekki merki um það að almennt verðlag sé á einhverri ferð upp á við, það er alls ekki. Ég var að vekja athygli á því, virðulegi forseti.