131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[15:09]

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Nú við 2. umr. frumvarps til fjárlaga ársins 2005 er ekki annað hægt að segja en að efnahagsstjórn ríkisstjórnarflokkanna sé styrk og að hún sé ábyrg. Í 10 ára samstarfi þessara tveggja flokka, í samstarfi Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, hafa menn sérstaklega gætt að stöðugleikanum. Stöðugleikinn tryggir fyrst og fremst áframhaldandi kaupmáttaraukningu íslensks almennings.

Á þessu sama 10 ára tímabili, árabilinu 1995–2005, hefur kaupmáttaraukning almennings verið um 40%. Ef tekið er tillit til þeirrar efnahagsspár sem mið er tekið af í fjárlagafrumvarpinu fram til ársins 2007 verður kaupmáttaraukning almennings 55% á 12 ára tímabili. Þessu hefur engin ríkisstjórn getað státað af í víðri veröld í þeim löndum sem við berum okkur saman við. En því miður reynir stjórnarandstaðan að mála hlutina í allt öðrum litum en þeir líta út í raun og veru. Þessi ríkisstjórn hefur náð stórkostlegum árangri í þeim efnum að bæta hag alls almennings. 55% raunkaupmáttaraukning á 12 ára tímabili — ég vil gerast svo djarfur, hæstv. forseti, að tala um afrek í því samhengi.

Kjarni málsins er að ef styrkrar efnahagsstjórnar nyti ekki við væri ekki svigrúm til fyrirhugaðra skattalækkana, skattalækkana sem munu sérstaklega að þessu sinni auka ráðstöfunartekjur launamanna, barnafólks og eldri borgara. Við höfum hér áður aukið kaupmátt öryrkja og þeirra sem búa við atvinnuleysi. Það var gert á fyrsta þingi nýrrar ríkisstjórnar, þá bættum við hag þessara tveggja þjóðfélagshópa sérstaklega og nú er því komið að hinum vinnandi manni í þessu landi.

Hæstv. forseti. Nú við 2. umr. hefur stjórnarandstaðan flutt dálítið merkilegan boðskap. Og hver er sá boðskapur sem hún hefur haft hér uppi? Jú, að fyrirhugaðar skattalækkanir, sem ég mun koma betur að á eftir, muni leiða til niðurskurðar í velferðarkerfinu, menntakerfinu o.s.frv.

Hv. talsmaður Vinstri grænna í fjárlaganefnd, hv. þm. Jón Bjarnason, sagði áðan að fyrirhuguðum skattalækkunum yrði mætt með skertum framlögum til velferðarmála og skólamála. Þetta eru hans óbreyttu orð, hæstv. forseti, og í raun og veru með ólíkindum að hv. þingmaður sem á sæti í fjárlaganefnd Alþingis og setur sig vanalega vel inn í hlutina skuli tala með slíkum hætti, enda veit hv. þingmaður betur í þessum efnum. Eins og ég hef sagt er þetta rangt og ég vil gefa mér að hv. þingmaður viti að í langtímaáætlun um ríkisfjármál er gert ráð fyrir því að raunaukning til heilbrigðismála verði 3% á ári umfram verðlag. Þetta veit hv. þingmaður. Af hverju fara menn hér með rangt mál? Er það til að auka óöryggi fólksins í landinu sem reiðir sig á það sterka velferðarkerfi sem núverandi ríkisstjórn hefur styrkt svo mikið sem raun ber vitni? Hver er tilgangurinn?

Ég vil halda því til haga, af því að við erum að tala hér um fjárlagafrumvarp fyrir árið 2005, að verið er að auka framlög til þessara málaflokka á bilinu 4–5% umfram verðlagshækkanir. Af hverju heyrum við þá hér nær daglega að það sé verulegur niðurskurður til þessara málaflokka? Það er bara ekki rétt. Auðvitað er það samt svo að við getum ekki mætt kröfum allra stofnana sem undir þessi ráðuneyti heyra. Þannig hefur það alltaf verið og þannig mun það alltaf vera en ég legg áherslu á að velferðar- og menntamálum hefur verið sinnt mjög vel í tíð þessarar ríkisstjórnar og það stendur ekkert annað til samkvæmt langtímaáætlun hennar.

Hæstv. forseti. Hvað varðar útgjaldaramma þessa frumvarps vil ég koma að nokkrum punktum sem snerta einstaka málaflokka. Mig langar að byrja hér að ræða um hið myndarlega átak ríkisstjórnarinnar við að eyða biðlistum fatlaðra eftir búsetuúrræðum. Því átaki mun ljúka á næsta ári, fimm ára átaki sem hæstv. þáverandi félagsmálaráðherra Páll Pétursson hrinti af stað á sínum tíma. Hefur núverandi hæstv. félagsmálaráðherra Árni Magnússon fylgt þessu metnaðarfulla átaki fast eftir og í raun og veru rekið smiðshöggið á þetta brýna mál. Ég fullyrði að aðstandendur hinna fötluðu einstaklinga og þeir sjálfir munu minnast þessarar ríkisstjórnar með hlýju hvað það varðar. Við upphaf ársins 2000 var mikil neyð. Á annað hundrað fatlaðir einstaklingar fengu ekki búsetuúrræði við hæfi. Hvorki sú ríkisstjórn né sú ríkisstjórn sem t.d. hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sat í gátu stært sig af þeim árangri. Hér höfum við náð virkilega góðum árangri hvað þetta varðar og sú yfirlýsing sem ríkisstjórnin hefur gefið, að næst sé komið að geðfötluðum, er fagnaðarefni.

En ég vil lofa sérstaklega það mikla og góða samstarf sem átti sér stað um þetta sérstaka átak í húsnæðismálum fatlaðra á milli félagsmálaráðuneytisins, hússjóðs Öryrkjabandalagsins og Landssamtakanna Þroskahjálpar. Án þeirrar góðu samvinnu efa ég að sá árangur hefði náðst sem raun ber nú vitni.

Annað mikilvægt mál sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir eru stórhækkuð framlög til Fæðingarorlofssjóðs, sjóðs sem stefndi því miður í þrot vegna þess að sú löggjöf sem við samþykktum hér, hin nýju fæðingarorlofslög, sem áttu að hafa það að markmiði að hvetja feður til þess að verja tíma með barni sínu virðast hafa tekist svo vel að feður virðast almennt nýta sér fæðingarorlofið. Slíkt er náttúrlega mikið gleðiefni en hins vegar blasti það við að sjóðurinn hefði farið í þrot vegna þess hversu mikil ásókn er í þennan ágæta sjóð en Fæðingarorlofssjóði hefur nú verið tryggður rekstrargrundvöllur sem er mjög mikilvægt mál, sérstaklega ef við horfum til þess að hér er um eitt stærsta framfaramál að ræða í jafnréttismálum á síðari árum, og ég veit að hv. þingmenn geta tekið undir það að hér er um mjög gott mál að ræða. (Gripið fram í: Við erum komnir úr barneign. Þú verður að taka þetta að þér.)

Hæstv. forseti. Framlög til skólamála hafa aldrei í sögunni verið hærri en nú. (Gripið fram í.) Núverandi ríkisstjórn hefur aukið allverulega framlög til framhaldsskólanna í landinu og háskólastigið blómstrar. Aldrei hafa jafnmargir einstaklingar verið í háskólanámi og við höfum aldrei varið jafnmiklum fjármunum til háskólasamfélagsins og við gerum nú. Og það er líka gleðilegt að í því frumvarpi sem við höfum fyrir framan okkur er varið sérstaklega 300 millj. kr. til Lánasjóðs íslenskra námsmanna sem mun lækka endurgreiðslubyrði greiðenda námslána um 1% á ári, úr 4,75% í 3,75%.

Mér þykir leitt hve hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa verið latir að benda á þetta mikilvæga mál fyrir námsmenn í landinu sem munu greiða af þessum lánum, og ég held að við ættum að hafa til hliðsjónar þá umræðu sem átti sér stað hér fyrr í vikunni og beindist mikið að okkur framsóknarmönnum hvað varðar aðbúnað að námsmönnum hér á landi. Hver var endurgreiðslubyrði námslána á tímum Alþýðuflokksins í tíð hv. þingmanna Össurar Skarphéðinssonar, Jóhönnu Sigurðardóttur, Guðmundar Árna Stefánssonar og Rannveigar Guðmundsdóttur, sem eru öll í Samfylkingunni í dag? Ég sé að hv. þingmönnum verður órótt í salnum en ég bið menn um að sýna stillingu á meðan ég klára mál mitt. Hver var endurgreiðslubyrði námslána þegar hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir var í ríkisstjórn eða hv. formaður Samfylkingarinnar, Össur Skarphéðinsson? (Gripið fram í: 7%.) 7%. Þegar Framsóknarflokkurinn settist í ríkisstjórn árið 1995, í aðdraganda þeirra kosninga, lofuðum við að lækka endurgreiðslubyrði af námslánum vegna þess að þar var um skattpíningu að ræða fyrir námsmenn í landinu sem Samfylkingin, a.m.k. góður hluti af Samfylkingunni sem er í þessum ágæta þingsal í dag, bar ábyrgð á. Við höfum lækkað endurgreiðslubyrði námslána úr 7% niður í 3,75%. Ég mun síðar í ræðu minni fara yfir þau jaðaráhrif sem fólk sem er að koma úr námi hefur lent í í núverandi skattkerfi og verið er að bregðast við að verulegu leyti með því frumvarpi sem við höfum fyrir framan okkur. Með lækkun endurgreiðslubyrði er verið að stórbæta hag þess hóps sem greiðir af námslánum og náttúrlega mörgum öðrum dýrum lánum.

Hæstv. forseti. Þó að umræðan um heilbrigðismál hafi verið fyrirferðarmikil hér vil ég árétta að áfram verður staðinn vörður um heilbrigðiskerfið. Við skulum hafa í huga að það sem af er ári hafa biðlistar almennt styst, m.a. á Landspítala – háskólasjúkrahúsi, og sjúkrahúsið, heilbrigðisstofnunin sem slík, hefur verið að ná gríðarlegum árangri. Ég fullyrði hér að við eigum besta heilbrigðiskerfi í heimi og við eigum að standa vörð um það. Eins og ég hef gert grein fyrir mun núverandi ríkisstjórn standa vörð um velferðarkerfið, um heilbrigðiskerfið, með 3% árlegri raunaukningu í þá málaflokka á næstu árum samkvæmt langtímaáætluninni. Það getur vel verið að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar vildu sjá 10% raunaukningu til þessara málaflokka, en er það ekki svo að við þurfum að sýna aðhald í einhverjum málaflokkum? Þurfum við ekki að sýna aðhald í heilbrigðismálum eins og í öðrum málaflokkum? Heilbrigðis- og tryggingamálin eru um 42% af fjárlögunum og halda hv. þingmenn að ef við yrðum við öllum kröfum á því sviði héldum við stöðugleika hér á landi? Ég stórefast um það.

Hæstv. forseti. Ég held að ég hafi að nokkru leyti farið yfir útgjaldahluta frumvarpsins í ræðu minni og þá langtímaáætlun sem engin ríkisstjórn hefur áður treyst sér til að gera. Við hv. þingmenn höfum fyrir framan okkur langtímaáætlun í ríkisfjármálum þar sem stærstu línurnar eru dregnar og við vitum að hverju við göngum í meginþáttum þjóðfélagsins.

Ég vil þá snúa mér að tekjuhlið frumvarpsins sem hefur ekki síður hlotið gagnrýni og snýr sérstaklega að þeim skattalækkunum sem ríkisstjórnarflokkarnir lofuðu fyrir síðustu kosningar og meiri hluti landsmanna stendur að. Það var meiri hluti landsmanna sem kaus þessa tvo flokka, m.a. út á þau skattalækkunaráform sem við lofuðum þá. (JóhS: … vaxtabæturnar …?) Það voru líka kjósendur m.a. Samfylkingarinnar sem kusu Samfylkinguna út á skattalækkanir. Ég held að hv. þingmenn geti ekki neitað því að Samfylkingin lofaði skattalækkunum. (Gripið fram í.)

Mig langar til, hæstv. forseti, að grípa aðeins niður í stefnu Samfylkingarinnar í skattamálum fyrir síðustu kosningar af því að nú segja forsvarsmenn Samfylkingarinnar að við skulum fara okkur hægt í þeim efnum. Vissu ekki allir frambjóðendur Samfylkingarinnar þá að það yrði þensla á þessu kjörtímabili? Við gerðum okkur öll grein fyrir því að við þyrftum líka að beita aðhaldi í ríkisfjármálum. En ég ætla að lesa örlítið upp úr stefnu Samfylkingarinnar, hæstv. forseti, hvaða stefnumið þeir höfðu í skattalækkunum almennt séð. Hefst þá lesturinn:

Samfylkingin vildi lækka tekjuskattinn, sem núverandi ríkisstjórn hefur reyndar lagt til, en Samfylkingin er allt í einu orðin á móti því að við lækkum tekjuskattinn.

Samfylkingin vildi hækka skattleysismörkin sem við erum reyndar að gera hér. Skattleysismörkin munu hækka um 20% við þá breytingu sem við erum að lögfesta hér en Samfylkingin er á móti því.

Samfylkingin vildi lækka virðisaukaskatt. Samfylkingin virðist hafa viljað hækka barnabætur sem hún hlýtur að vera sammála og mér hefur reyndar heyrst í umræðunni að sé það eina sem Samfylkingin getur fellt sig við.

Samfylkingin vildi lækka þungaskatt, afnema stimpilgjöld og lækka endurgreiðslubyrði námslána, jafna námskostnað, svo fátt eitt sé nefnt. Þetta eru u.þ.b. átta liðir og er ég þó ekki öllum hnútum kunnugur í stefnu Samfylkingarinnar í skattamálum (Gripið fram í.) og mér skilst nú að þau loforð sem Samfylkingin hélt á lofti fyrir síðustu kosningar hafi oft verið hálfpartinn landshlutabundin. (Gripið fram í.) Margir hafa reiknað þessi skattaloforð, ef ítarlega er reiknað, upp á 30 milljarða kr. (Gripið fram í.) Og nú heyrist hljóð. Hv. þingmenn Samfylkingarinnar vilja ekki kannast við þessa kostnaðarútreikninga. En ég stórefa að þeir hafi gaumgæft það sérstaklega hvað skattapakkinn þeirra kostaði. (Gripið fram í.) Enda var það svo í umræðum um skattafrumvarpið í fyrradag að hv. formanni Samfylkingarinnar fannst mjög óeðlilegt að núverandi ríkisstjórn væri að huga að því svigrúmi sem við hefðum jafnvel til þess að lækka matarskattinn og hvort við hefðum svigrúm. Nei, það átti bara að fara strax í hlutina. Þannig hefði það orðið ef Samfylkingin hefði komist að, bara allar skattalækkanir strax, ekkert að vera að hugsa um hvaða áhrif það hefði á stöðugleikann eða neitt slíkt, bara að lækka þá strax. Ég þakka mínum sæla fyrir að stjórnarandstaðan komst ekki í stjórnarmeirihluta á síðasta kjörtímabili.

Hv. formaður Frjálslyndra hélt mikla ræðu áðan og talaði um að stjórnarflokkarnir og sérstaklega formaður Framsóknarflokksins hefði verið eins og hani á haug í skattamálum fyrir síðustu kosningar — og ég sé að hv. þingmaður kinkar kolli við því — eins og hani á haug. (Gripið fram í: Það er alveg rétt.) Ég leyfi mér að fullyrða að það er enginn hv. þingmaður á Alþingi sem hefur jafnmikið vit á skattamálum og gjörþekkir núverandi skattkerfi eins og hæstv. forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson. Og ég veit ekki betur en að í umræðuþætti fyrir síðustu alþingiskosningar hafi þeim lent saman núverandi hæstv. forsætisráðherra Halldóri Ásgrímssyni og hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni út af skattamálum. Ég vil meina að Halldór Ásgrímsson hafi haft þar eitthvað til síns máls þegar menn voru að bera sama annars vegar persónuafslátt og hins vegar skattleysismörk. Ég man ekki betur.

En hvernig var skattstefna Frjálslyndra, sem hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson gerði að umtalsefni áðan? Jú, það var tvennt, annars vegar að hækka persónuafsláttinn og þar af leiðandi skattleysismörkin, sem við erum að gera hér um heilar 15 þús. kr., og hins vegar að hækka barnabætur þannig við værum að tala um rétt barnsins. Hvað þýðir það á mæltu máli? Hver er stefna Frjálslynda flokksins í þeim efnum? Jú, að foreldrar, sama hvort þeir eru með 2 millj. á mánuði eða 100 þús. kr. á mánuði, fái jafnmikið í barnabætur. Það er ekki stefna ríkisstjórnarinnar. Stefna ríkisstjórnarinnar í þeim efnum hvað varðar barnabætur er sú að láglaunafólk og millitekjufólk fái nær alla þá fjármuni sem við setjum í barnabætur. Það er munurinn á stefnu núverandi ríkisstjórnar og þeirrar stefnu sem Frjálslyndi flokkurinn boðaði á síðasta kjörtímabili.

En eins og áður hefur komið fram, hæstv. forseti, lögðum við framsóknarmenn sérstaka áherslu á stórhækkun barnabóta í aðdraganda síðustu kosninga og nú liggur fyrir að 2,4 milljörðum kr. verður varið til hækkunar barnabóta sem munu sérstaklega, eins og ég hef áður sagt, nýtast láglaunafólki og millitekjufólki. Hátekjufólk fær mjög lítinn hluta af þessari hækkun, það liggur fyrir, enda munu ráðstöfunartekjur þess hóps hækka verulega í tengslum við lækkun á tekjuskattinum. Hér er um tekjujafnandi aðgerðir að ræða. Það þýðir ekki fyrir hv. þingmenn Samfylkingarinnar að bera það á borð fyrir íslenska þjóð að kennarinn sé að fá einn bleyjupakka út úr skattalækkunartillögunum og taka bara fyrir einn hluta af skattalækkunartillögunum en horfa ekki á heildarmynd hlutanna. Svona er öllu snúið á haus í þessari umræðu.

Það er ósköp eðlilegt að stjórnarandstöðunni verði hált á svellinu í umræðunni því hún talar út og suður. Vinstri grænir vilja engar skattalækkanir, Samfylkingin er horfin frá 30 milljarða kr. skattalækkunum sem hún boðaði fyrir kosningar þannig að það er ekki mikill samhljómur í hinni sameinuðu stjórnarandstöðu sem hér er.

Ég spyr hv. þingmenn Samfylkingarinnar að því hvort við værum yfir höfðuð að taka ákvarðanir um einhverjar skattalækkanir í þjóðfélaginu ef þeir hefðu komist í ríkisstjórn eins og þeir áformuðu með Vinstri grænum og Frjálslyndum. Hv. þingmenn Vinstri grænna hafa sagt hér í ræðustól að þeim finnist skattalækkanir ekki tímabærar. Það væri ekki burðugt að vera undir þeirri stjórn miðað við þá hrópandi mótsögn í málflutningi sem stjórnarandstaðan hefur viðhaft í dag.

Hæstv. forseti. Stjórnarandstaðan hefur jafnframt boðað andstöðu við niðurfellingu eignarskattsins. Hverjum mun sú breyting koma einkum til góða? Það eru eldri borgarar, fólk sem er 60 ára og eldra og er í skuldlausu húsnæði. Við skulum taka dæmi um einstakling sem er 70 ára gamall og býr í þriggja herbergja íbúð úti í bæ, jafnvel tveggja herbergja íbúð, sem kostar 15 millj. kr., og hefur sín lífeyrisréttindi sem eru kannski ekki svo beysin, enda höfum við tekið umræðu um það á Alþingi að við þyrftum að bæta hag þessa þjóðfélagshóps. Hver yrði ávinningur þessa einstaklings sem situr í slíkri 15 millj. kr. íbúð? 60 þúsund krónur á ári. 6% hækkun á ráðstöfunartekjum viðkomandi.

Stjórnarandstaðan leggst gegn þessu vitandi það að meiri hluti eignarskattsins kemur frá þessum hópi fólks. Ætlar svo stjórnarandstaðan að koma hér upp utan dagskrár í næstu viku og ræða um kjör eldri borgara og stefnuleysi ríkisstjórnarinnar gagnvart þessum þjóðfélagshópi? (HHj: Það væri ástæða til.) Það væri nefnilega ástæða til að heyra hvað stjórnarandstaðan leggur þá til í þessum efnum því engar koma tillögurnar í þessari umræðu, bara niðurrif og gagnrýni. Allt er svo svart og allt svo neikvætt. Það er svo neikvætt að hygla sérstaklega lágtekjufólki og millitekjufólki, barnafólki. Það er ógurlega neikvætt að hygla eldri borgurum. Það er ógurlega að neikvætt að koma til móts við millitekjufólkið í þjóðfélaginu sem er nú það sem ég ætla að tala um næst, þ.e. 4% lækkun á tekjuskattinum. (Gripið fram í.)

Áður ætla ég þó að velta upp einni spurningu og gott væri að fá svar við henni í þessari umræðu: Er nokkuð sjálfgefið að háskólamenntaður maður með 200 þús. kr. í laun á mánuði hafi það eitthvað betra en ófaglærður einstaklingur sem hefur 150 þús. kr. laun á mánuði? Er það sjálfgefið? Eigum við bara að horfa á tekjuhliðina? Er veröldin svona svart/hvít? Ég fullyrði að oft sé það ekki svo vegna þess að viðkomandi háskólamenntaður maður er að borga af námslánum sínum. Þetta er ekki svona svart/hvítt. Við verðum að horfa líka á greiðslubyrði heimilanna. Við verðum að horfa á greiðslubyrði unga fólksins sem er að koma úr námi og reyna að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Stjórnarandstaðan vill það ekki. Hún hefur lýst sig andvíga 4% lækkun tekjuskattsprósentunnar.

Hverjir hafa nú hvað mest út úr 4% lækkun á tekjuskattsprósentunni? Jú, það er milli tekjufólk og duglegt ungt fólk sem er að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Við tölum um jaðarskatta. Er þetta ekki fólkið sem er að lenda í jaðarsköttunum? Er þetta fólk sem hefur kannski 500 þús. kr. laun á mánuði og er að reyna að koma sér upp þaki yfir höfuðið og bíl, að fá einhverjar barnabætur eða vaxtabætur? Eins og stefnan er gagnvart hátekjuskattinum, greiðir þetta fólk ekki hátekjuskatt líka? Þetta er glæsilegt umhverfi fyrir fólk að hefja sinn búskap í og stjórnarandstaðan er á móti. Ég mundi vilja fara á fund út í Háskóla Íslands með stjórnarandstöðunni og ræða þá skattstefnu sem hún viðhefur hér. Við höfum sérstaklega tekið á því að bæta kjör atvinnulausra og öryrkja. En má ekkert koma til móts við hið vinnandi fólk sem stendur undir velferðarkerfinu hér á landi? Á bara að loka fólk inni í einhverjum fangaklefa og af því það er með svo há laun þá fær það náttúrlega engar vaxtabætur eða barnabætur. Má ekki lækka tekjuskattsprósentuna um 4%? Það væri gott að fá svör við því hér í dag.

Mig langar að segja að ég held að það séu ekkert óalgeng kjör kennara, sambúðarfólks sem bæði hafa kennaramenntun og vinna í skóla, að þau séu um 450 þús. kr. á mánuði. Ef við gefum okkur að þessi kennaramenntuðu hjón hafi tvö börn á framfæri hvað munu þessar tillögur ríkisstjórnar þá skila þessu fólki í vasann? 45 þús. kr. mánaðarlega.

Hv. þm. Jón Gunnarsson getur brosað að þessu. En ég held að þessu fólki veiti bara ekkert af þessum tekjum miðað við allt og allt. (Gripið fram í.) Þetta fólk er kannski nýkomið úr námi og þarf að standa undir mikilli greiðslubyrði. Hvað ef endurgreiðslubyrði námslána hefði nú verið 7% eins og hún var hérna fyrir árið 1995, þá væru þessi jaðaráhrif enn verri. Ég vil fá að heyra stefnu stjórnarandstöðunnar gagnvart þessum þjóðfélagshópi, fólki sem er að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Ég hef ekki heyrt neinar tillögur í þá átt að bæta kjör þessa fólks.

Hæstv. forseti. Hv. þingmenn hafa líka rætt um það hér að þetta sé allt miðað við hjón með tvö börn undir sjö ára aldri. Við skulum taka sömu kennaramenntuðu hjónin sem hafa 450 þús. kr. í laun á mánuði. Hver verður mánaðarlegur ávinningur þessa fólks? 30 þús. kr. á mánuði. Svo talar stjórnarandstaðan um að við séum bara að koma til móts við stóreignamenn. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon les hér upp úr Frjálsri verslun um einhverja einstaklinga sem hafa yfir milljón kr. á mánuði. (GAK: Gleymirðu hátekjuskattinum?) Hvers lags málflutningur er þetta? Þegar hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson talar um hátekjuskattinn þá minnist ég þess ekki að hann hafi greitt á móti því atkvæði að hann yrði felldur úr gildi. (GAK: Jæja?) Ég minnist þess ekki. (GAK: Nei.) Samfylkingin sat a.m.k. hjá í þeim efnum. Samfylkingin sat hjá í þeim efnum. Svo virðast nú ákveðnir þingmenn Samfylkingarinnar geta gagnrýnt þessa ákvörðun þegar Samfylkingin beitti sér ekki einu sinni gegn afnámi hátekjuskattsins, sem var, vel að merkja, tímabundinn skattur.

Hæstv. forseti. Þetta er kjarni málsins. Ef styrkrar efnahagsstjórnar hefði ekki notið við í þjóðfélaginu þau tíu ár sem þessi ríkisstjórnin hefur verið við völd þá værum við ekkert að fara í neinar fyrirhugaðar skattalækkanir. Við værum ekkert að fara að auka ráðstöfunartekjur sérstaklega barnafólks, eldri borgara eða alls almennings með þessum aðgerðum.

Við erum gagnrýnd fyrir það að skila launafólkinu í landinu til baka þeim árangri sem ríkisstjórnin hefur náð í efnahagsmálum á undanförnum árum, skila til baka arðinum af atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar sem stjórnarandstaðan hefur nú reyndar ætíð verið á móti, atvinnustefnu sem hefur skilað hagvexti og gefur okkur það svigrúm að koma til móts við launafólk í þessu landi.

Ég skal nefna tvo hluti í þeim efnum þegar við tölum um atvinnustefnuna. Ég veit ekki betur en að sjávarútvegurinn hafi verið að skila myndarlegum afgangi inn í ríkissjóð og skapi hagvöxt í landinu. Stjórnarandstaðan hefur verið sameinuð gegn ríkisstjórnarflokkunum í þeim efnum. Ég veit ekki betur en áhöld hafi verið um það í þingsalnum hvort við ættum að byggja upp frekari iðnað í landinu, m.a. á Austurlandi. Ég veit ekki betur en að þingmenn Frjálslyndra hafi setið hjá í þeim efnum og þingmenn Vinstri grænna hafi nú bara verið á móti því. Svo var Samfylkingin svona út og suður í þeim efnum. Það er náttúrlega voðalega ódýrt að geta talað einni röddu í Reykjavík en svo allt öðruvísi austur á landi. (Gripið fram í.) En fólk á orðið síma í dag. Fólk kemst að þessu. Við búum bara orðið í það hátæknivæddu samfélagi að svona spyrst út, líkt og sjávarútvegsstefna Samfylkingarinnar á Austfjörðum og á Siglufirði. Hún var ekki eins.

Hæstv. forseti. Ég sé að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir er búin að gefa merki og ætlar að koma hér upp í andsvar. Mig langar að spyrja hana einnar spurningar: Hvernig var ástandið hér 1991–1995? Ég bið hv. þingmann að hugsa það vel. Þá var hún félagsmálaráðherra í mikilli jafnaðarstjórn eins og gefur að skilja. Jú, samneyslan var rúm 40% í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Hún er um 45% í dag. Við höfum aukið samneysluna um 5,4% á árabilinu 1994–2004.

Svo saka menn ríkisstjórnina um að vera ekki félagslega sinnuð. Í hvað fer þessi samneysla? Jú, hún stendur undir velferðarkerfinu, heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu. Það væri gott að heyra hv. þingmann leiðrétta mig ef ég fer með rangt mál. Það fer meira af sameiginlegum tekjum þjóðarinnar í að reka skólana, heilbrigðiskerfið og velferðarkerfið en á hennar tímum. Svo tala hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar um að hér sé gríðarleg hægri stjórn við völd. Það ætti reyndar Frjálslyndi flokkurinn að þakka fyrir því hann skilgreinir sig sem hægri flokk. En ég hef ekki orðið var við það í umræðunni í dag. Hér er engin hægri stjórn við völd. Hér er velferðarstjórn við völd.

Hvernig þróuðust t.d. barnabætur í tíð ríkisstjórnarinnar 1991–1995? Þær lækkuðu um 1 milljarð á því árabili. Kjör almennings skertust í tíð þeirrar ríkisstjórnar. Hér var engin velmegun í þá daga. Svo þegar við hér árið 2004 höfum hækkað meðalráðstöfunartekjur heimilanna um 40% og stefnum að því að hækka meðalráðstöfunartekjur heimilanna upp í 55% árið 2007 þá er eins og allt sé í rjúkandi rúst. Ég bið hv. þingmenn, þó ég sé nú ungur á þingi, að kannast við sína pólitísku fortíð, hv. þingmenn Jóhönnu Sigurðardóttur, Össur Skarphéðinsson og Steingrím J. Sigfússon. Þetta var ekkert glæsilegt. Þetta var ekkert glæsilegt hérna einu sinni.

Hvað heyrum við oft sagt hérna: „Ríkisstjórnin hefur fallið á efnahagsprófinu“? Það hefur ríkt stöðugleiki hérna í tíu ár. (Gripið fram í: 9% verðbólga.) Var ekki gripið þar til ábyrgra aðgerða? Þegar við tölum um stöðugleika þá veit ég ekki betur en hv. þm. Jón Bjarnason hafi verið að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir niðurskurð í vegamálum um 2 milljarða á næsta ári og 2 milljarða á þessu. Við höfum skorið stórfelldlega niður eða frestað framkvæmdum í vegamálum. En þess þarf. Það þarf að taka óvinsælar ákvarðanir til þess að viðhalda stöðugleikanum. Svo eru það allar þær útgjaldatillögur sem hv. þm. Jón Bjarnason hefur lagt fram. Þetta eru menn sem standa í ræðustól og tala um hve mikilvægt sé að viðhalda stöðugleika í landinu. Er ekki einhver tvískinnungur í annars vegar orðum og hins vegar í gerðum? Reyndar munum við vonandi ekki samþykkja þessar gríðarlegu útgjaldatillögur sem hv. þm. Jón Bjarnason hefur lagt fram í flestöllum málaflokkum. Ég vona ekki. Við þurfum að varðveita stöðugleikann. Það er mikið mál.

Hæstv. forseti. Að lokum vil ég segja að ég er mjög stoltur af því frumvarpi sem við munum vonandi afgreiða fyrir jól til fjárlaga næsta árs, frumvarpi sem svarar bæði kalli verkalýðshreyfingarinnar og atvinnulífsins og skilar afgangi upp á rúma 10 milljarða sem er mjög mikilvægt miðað við þær aðstæður sem nú eru uppi í efnahagslífinu.