131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[15:46]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi hv. ungi þingmaður sem kom inn á þing með það veganesti að ætla að bæta kjör unga fólksins stendur hér bara og segir að það sé allt í lagi þó að verið sé að rýra fæðingarorlofsgreiðslurnar úr 80% af tekjum niður í 74–75%. Þingmaðurinn ætlar greinilega að standa að fjárlögum sem skerða fæðingarorlofsgreiðslurnar niður í 74–75%. (Gripið fram í.)

Þingmaðurinn ætlar líka greinilega að standa að fjárlagafrumvarpi sem eykur greiðslubyrði lána hjá fólki með því að skerða vaxtabæturnar. Þingmaðurinn ætlar líka að standa að fjárlagafrumvarpi sem færir ungu fólki enga aukningu í barnabótum á næsta ári vegna þess að það að hækka barnabætur er ekki í forgangi hjá þessari ríkisstjórn. Í forgangi hjá henni er að lækka skatta fyrst og fremst hjá þeim efnameiri.

Þannig stendur þessi ríkisstjórn að málum, hún bætir ekki kjör unga fólksins og hún bætir ekki kjör barnafólksins sem sést m.a. á því að framsóknarmenn vilja ekki (Forseti hringir.) lækka virðisaukaskatt eins og allir aðrir flokkar á þingi vilja.