131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[15:51]

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil rifja upp umræðu sem við áttum fyrr á þessu þingi um innritunargjöld, m.a. við Háskóla Íslands. Það er rétt, ég sagði þá að þetta mál yrði skoðað. Þetta mál var tekið upp innan flokksins, innan Framsóknarflokksins, og við kölluðum eftir rökstuðningi frá Háskóla Íslands hvað þetta varðar. Þetta er í fyrsta skipti sem við fáum góðan rökstuðning fyrir innritunargjöldum.

Ég vil minna á hvenær innritunargjöldin voru tekin upp, það var í tíð hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, besta vinar námsmanna í þessu landi að mér heyrist. Þá var þetta lögfest, í þá daga. En við vorum ekki tilbúin að samþykkja hvað sem var í þessum efnum. Við höfum fengið rökstuðning frá Háskóla Íslands. Munurinn á þessum innritunargjöldum og innritunargjöldum Samfylkingarinnar er sá að þeir fjármunir sem koma af þessum innritunargjöldum munu leggjast ofan á rekstrargrunn skólans. Hvernig var það áður fyrr? Þá drógust þau frá rekstrargrunninum. Hér er um algjöran viðsnúning að ræða hvað menntamálin varðar, ég vil upplýsa hv. þingmann um það.

Hvað varðar samning við öryrkja er það orðið langt mál. Við ræddum það mikið í fyrra. Ég spurði hv. þm. Þuríði Backman, samflokksmann Jóns Bjarnasonar, hvort ekki væri rétt að á öllum fundum sem ég fór á um Norðaust. með henni hafi ég talað um 1 milljarð. Ég hef alla tíð talað um 1 milljarð. Betur veit ég ekki í þessu máli, svo að ég segi það alveg eins og er. Ég tel mig hafa nokkuð hreina samvisku í þessum efnum. Ég talaði alla tíð um 1 milljarð í þessum efnum. (Gripið fram í.)