131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[15:55]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á því að taka fram að ég ætla að fara að tilmælum hv. þingmanns og tala ekki út og suður, heldur einmitt um hluti sem hv. þingmanni eru mjög kærir. Það eru stöðugleikinn annars vegar og hins vegar Siglufjörður.

Ég spyr fyrst hv. þingmann hvernig honum lítist á stöðugleikann á Siglufirði. Frá því að núverandi stjórn, eða öllu heldur Framsóknarflokkurinn, tók við völdum hefur fólki fækkað á Siglufirði um heila 300 einstaklinga og störfum um rúmlega 100. Telur hann þetta til marks um stöðugleika á landsbyggðinni? Ég tel svo ekki vera.

Það væri mjög áhugavert að fá að heyra hvaða augum hv. þingmaður lítur stöðugleikann á landsbyggðinni, og sérstaklega á Siglufirði. Á ágætri vefsíðu, siglo.is, er farið yfir í hvaða aldurshópum fólki fækkar mest. Þar kemur fram að í yngsta aldurshópnum fækkar hvað mest. Á síðustu sjö árum hefur fækkað í þeim aldurshópi sem er í grunnskólum um 120 manns. Það er mikið áhyggjuefni og mér finnst mjög sérstakt að hlýða á þingmann frá Siglufirði vera að tala um stöðugleika án þess að ræða neitt um landsbyggðina, um heimabæ sinn sem ætti að vera honum kær. Hann ætti að líta svolítið á hlutina út frá sínum heimabæ.