131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[15:57]

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að viðurkenna að ég átti ekki von á því í umræðu um fjárlög að við færum að ræða um heimaslóðir mínar á Siglufirði en ég skal glaður tala um það málefni hér í þessu stutta andsvari. Ég held að hv. þingmanni verði að vera eitt ljóst, það þýðir ekkert að tala alltaf hlutina niður, endalaust niður. Ég hef aldrei heyrt neina framtíðarsýn koma frá hv. þingmanni. Ég veit ekki betur en að hér á Alþingi sé búið að ákveða að við förum í mikla samgöngubót sem mun gagnast byggðunum við utanverðan Eyjafjörð. Ég veit ekki betur en að verið sé að verja þar líf fólks með ofanflóðavörnum sem ríkið stendur líka að.

Ég veit ekki betur en að ríkið og ríkisstjórnin hafi líka komið mjög myndarlega að ferðamálum á Siglufirði, með mjög myndarlegum framlögum til Síldarminjasafnsins. Ég veit ekki betur en að ríkið standi mjög myndarlega að heilbrigðismálum á Siglufirði, með fyrirhugaðri viðbyggingu við heilbrigðisstofnunina sem mun líka nýtast Ólafsfirðingum í framtíðinni. Ég veit ekki betur en að ég og hv. þingmaður séum að berjast fyrir því hér, a.m.k. er hann með mér á þeirri ágætu þingsályktunartillögu, að við munum reyna að koma á fót framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð.

Þetta er sú framtíðarsýn sem ég hef, að við höldum unga fólkinu lengur heima á þessum stöðum. Það getur þó sótt háskólanám sitt inn á Eyjafjarðarsvæðið sem verður nokkuð sjálfbært svæði að þessu leytinu til. Þetta er framtíðarsýn mín. Ég stend hér beinn í baki þegar ég ver stjórnarflokkana hvað Siglufjörð varðar.