131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[16:33]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegur forseti. Að gefnu tilefni er bæði ljúft og skylt að fara enn einn ganginn yfir svokallað öryrkjamál og það sem er kallað svik tryggingamálaráðherra og ríkisstjórnar vegna samkomulags sem sá er hér stendur og formaður Öryrkjabandalagsins handsöluðu í Þjóðmenningarhúsinu þann 25. mars 2003. Það er talað um svik en það gleymist að þá voru báðir aðilar sammála um réttmæti þess og mikilvægi að tvöfalda grunnlífeyri þeirra einstaklinga sem yngstir verða öryrkjar. Það var meginmál samkomulagsins og við þetta meginatriði var staðið. Þetta var sú mikla stefnubreyting sem varð með samkomulaginu, þ.e. að viðurkenna sérstöðu þeirra sem yngstir verða öryrkjar. Síðan var gert ráð fyrir að hækkunin rynni út við 67 ára aldur þannig að öryrki sem væri á þeim aldri stæði í sömu sporum og áður.

Önnur staðreynd málsins er að í samkomulaginu var gert ráð fyrir að 1 milljarður kr. rynni til að fullnusta samkomulagið eins og ávallt hefur komið fram. Þannig var málið samþykkt í ríkisstjórn.

Það er nauðsynlegt á þessu stigi að fara nokkrum orðum um útfærslu málsins. Þegar samkomulagið var handsalað var rennt blint í sjóinn með það hver endanlegur kostnaður yrði. Þess vegna var talað um að kostnaðurinn gæti orðið um, allt að eða rúmlega 1.000 millj. kr. Eins og áður er fram komið var talið af hálfu heilbrigðisráðuneytisins að kostnaður gæti orðið eitthvað meiri og gæti hugsanlega farið í 1.200 millj., allt eftir því hvernig samkomulagið yrði útfært, en í viðræðum aðila sem staðið höfðu um nokkurra mánaða skeið hafði m.a. komið fram að kostnaðurinn gæti hugsanlega orðið á bilinu 700–1.000 millj. kr.

Útgangspunkturinn var sem sé að tvöfalda grunnlífeyri þeirra sem yngstir hafa orðið öryrkjar og útfæra samkomulag sem kostaði um 1.000 millj. kr. Til þess að útfæra samkomulagið frá 25. mars var skipaður starfshópur. Í honum sátu fulltrúar heilbrigðisráðherra, Öryrkjabandalagsins og fjármálaráðuneytisins, enda ljóst að endanleg útkoma og heildarkostnaður færi eftir þeim forsendum sem lagðar yrðu til grundvallar í starfi hans. Þessi starfshópur var skipaður þann 6. maí, sex vikum eftir að samkomulagið var kynnt, og útgangspunkturinn í starfi hans var í fyrsta lagi viðurkenningin á sérstöðu þeirra sem verða öryrkjar snemma á lífsleiðinni með því að tvöfalda grunnlífeyrinn og í öðru lagi að útfæra samkomulagið í samræmi við það fé sem það mundi kosta, þ.e. um 1 milljarð kr.

Rétt er að taka það fram að það er Öryrkjabandalagið sjálft sem með málflutningi sínum hefur valið sér að heildarkostnaðurinn við samkomulagið sé eða hafi verið 1.500 millj. kr. Á þeim grundvelli er því haldið fram að þar sem 1.000 millj. kr. hafi runnið til hækkunar bóta hafi heilbrigðisráðherra svikið samkomulagið og 500 millj. kr. vanti í viðbót til aldurstengdu örorkubótanna.

Það er líka rétt að hnykkja á því að hvorki heilbrigðisráðuneytið, Tryggingastofnun ríkisins né Öryrkjabandalagið gat sagt um það fyrir fram hvað samkomulagið mundi kosta endanlega vegna þess að þá lágu ekki fyrir útreiknaðar upplýsingar um það hvenær hver og einn varð öryrki en á því byggðist útkoma reikningsdæmisins. 1.500 millj. byggjast á forsendum sem Öryrkjabandalagið gaf sér og vísar í því sambandi til útreikninga sem Tryggingastofnun ríkisins gerði í apríl, miðað við tilteknar gefnar forsendur, og Öryrkjabandalag Íslands. Þeir útreikningar voru gerðir mánuði áður en nefnd sú sem m.a. átti að útfæra samkomulagið var skipuð.

Svo mjög er heildarkostnaður eða endanlegur kostnaður háður forsendum sem menn gefa sér að marklaust er að tala um ákveðinn kostnað fyrr en forsendurnar hafa verið ákveðnar. Um það náðist ekki samkomulag í nefndinni sem átti að útfæra samkomulagið sem handsalað var, og niðurstaða um endanlegan kostnað lá því ekki fyrir útreiknuð fyrr en haustið 2003. Þetta var útreiknað að gefnum öllum þeim forsendum sem þurfti að fastsetja til að geta reiknað út heildarkostnaðinn með áreiðanlegum hætti.

Það er rétt að taka fram, til að halda öllu rétt til skila, að áður en vinna starfshópsins hófst lágu m.a. fyrir útreikningar Tryggingastofnunar ríkisins frá því í febrúar 2003 á nokkrum hugsanlegum leiðum sem fram höfðu komið í viðræðum við Öryrkjabandalagið áður en samkomulag ráðherra og formanns Öryrkjabandalags Íslands var gert og áður en veittar voru 1.000 millj. kr. í þessa miklu réttarbót fyrir öryrkja. Forsendur fyrir þessum útreikningum og mismunandi leiðum eru breytilegar eins og niðurstöður útreikninganna bera með sér.

Í fyrsta lagi eru t.d. útreikningar frá 27. febrúar 2003, reiknaður kostnaður vegna 10 ára aldurbils greiningaraldurs öryrkja, fimm ára aldursbils greiningaraldurs öryrkja, tilteknar breytingar á tekjutryggingu með óbreyttu frítekjumarki og hækkun tekjutryggingarauka um 15 þús. kr. á mánuði, svo dæmi séu tekin.

Í öðru lagi er Tryggingastofnun ríkisins fengin til þess í apríl 2003 að meta hvað hugsanleg breyting á örorkulífeyri kostaði ef miðað væri við greiningu sem miðaðist við aldur en ekki aldursbilið. Voru þessir útreikningar með öðru hafðir til hliðsjónar eftir að að starfshópnum hafði verið komið á fót 6. maí.

Til að undirstrika mikilvægi forsendnanna þegar heildarkostnaður við þessa mikilvægu kerfisbreytingu er metinn er rétt að það komi fram að í bréfi frá Tryggingastofnun ríkisins frá í september 2003 kemur fram að stofnunin geti reiknað út kostnaðinn við samkomulagið þegar allar forsendur útreikninganna sem ekki lágu fyrir liggi fyrir, enda var þá gerð tilraun til að ná samkomulagi í starfshópnum um endanlega útfærslu.

Meðal þess sem stofnunin tiltekur í bréfi sínu að þurfi að liggja fyrir til að hægt sé að meta kostnaðinn nákvæmlega er eftirfarandi:

ákvörðun um það hvort aldurstengdar greiðslur ættu að ná til endurhæfingarlífeyris og slysaörorkulífeyris,

ákvörðun um hvort fyrsta örorkumat eða örorkumat endurhæfingarlífeyris skyldi ráða því hvenær viðkomandi varð öryrki,

hvort aldursdreifing miðaðist við ár en ekki brot úr ári og

hvernig ætti að fara með þá sem ekki hefðu samfellt 75% örorkumat.

Hér eru aðeins tilfærðar nokkrar þeirra forsendna sem Tryggingastofnun ríkisins taldi í september 2003 að þyrftu að liggja fyrir til að reikna mætti út endanlegan kostnað við samkomulagið vegna áhrifanna sem mismunandi forsendur hefðu á niðurstöðu heildarútreikninganna. Forsendurnar lágu ekki fyrir fyrr en í nóvember 2003 og þar með sjálf útfærslan og kostnaðarmat.

Að halda því fram að samkomulagið hafi verið rétt og slétt reikningsdæmi þar sem allar stærðir hafi verið ljósar fyrir fram og löngu fyrir þennan tíma er ekki réttt. Staðreyndin er sú að þeir sem yngstir urðu öryrkjar fengu tvöfaldan grunnlífeyri eins og að var stefnt og ríkisstjórnin veitir til þeirrar merkilegu breytingar um 1.300 millj. kr. á þessu ári en ekki 1.000 millj.

Mörg orð og þung hafa fallið í umræðunni um þetta tímamótasamkomulag sem aldurstengdu örorkubæturnar eru, og mér finnst það mjög miður. Það eru nokkrar staðreyndir sem ég legg fram enn á ný til að menn sjái í krónum og aurum hvernig staðan er varðandi öryrkja.

Heildargreiðslurnar hafa tæplega tvöfaldast á síðustu fimm árum. Þær voru 7,5 milljarðar árið 2000 en verða samkvæmt áætlun næsta árs rúmlega 14,3 milljarðar. Greiðslur til örorkulífeyrisþega sem hlutfall af heildarútgjöldum heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins hafa hækkað úr 9,6% í um 12% á næsta ári.

Ef við tökum kaupmáttarþróun t.d. frá 1998 til dagsins í dag lítur dæmið þannig út að kaupmátturinn hefur aukist um 14,8% á tímabilinu en ráðstöfunartekjur á mann hafa aukist um 21,5%. Kaupmáttur bóta einhleyps örorkulífeyrisþega hefur aukist um 25,6%, kaupmáttur bóta hjóna sem bæði eru lífeyrisþegar hefur aukist um 50,2% og kaupmáttur bóta hjóna þar sem maki er ekki lífeyrisþegi hefur aukist um 45,2%.

Virðulegur forseti. Það getur enginn haldið því fram af sanngirni að hagsmunir öryrkja séu fyrir borð bornir, öðru nær. Ég vil undirstrika að könnun sem ég hef látið gera og er að láta gera um fjölgun öryrkja hefur það engan veginn í för með sér að ég sé að væna öryrkja um svik eða að misnota örorkubótakerfið. Eins og hv. þm. Helgi Hjörvar, 9. þm. Reykv. n., sagði réttilega getur alltaf verið eitthvað um misnotkun í félagslegum kerfum. En það er langt frá því að athugun mín á fjölgun öryrkja hafi nokkuð með þetta að gera. Ég vil bara láta skoða hvaða ástæður eru fyrir þeirri þróun sem leiðir til mikils útgjaldaauka í fjárlagafrumvarpinu á yfirstandandi ári og á næsta ári, upp á um 2,5 milljarða kr., en það hefur ekkert með staðreyndir þessa tiltekna máls að gera. Þetta eru staðreyndir sem við stöndum frammi fyrir, að útgjöldin hafa hraðvaxið vegna öryrkjanna, og það er ekki þeim í hag að þróunin haldi svona áfram ef t.d. einhver önnur kerfi eru að bila og það ýtir fólki inn í örorkubótakerfið eða hvað það er í samfélaginu sem hefur það í för með sér að ýta undir þá þróun að fólk verði öryrkjar. Að mínu mati er nauðsynlegt að skoða þetta og sú skoðun sem ég er með í gangi í þessu efni er einn þátturinn í því.

Það eru kannski mistök mín í þessu efni að ég hef ætíð verið reiðubúinn til að berjast fyrir hagsmunum öryrkja. Ég tók það fram í umræðunni í fyrra um málið, mjög hörðum umræðum sem stóðu dögum saman, að ég teldi að hagsmunabaráttu öryrkja væri ekki lokið. Ég vona svo sannarlega að hægt verði að halda henni áfram og koma til móts við óskir Öryrkjabandalagsins því að ég tel að þetta sé kannski ekki eina óskin sem þeir hafi um sín kjör. Ég hef ætíð verið tilbúinn að berjast fyrir bættum kjörum þeirra.

Varðandi þær spurningar sem hv. þingmaður beindi til mín þá á ég ekki von á að það komi breytingartillaga við málið við 3. umr. Mér finnst auðvitað mjög miður ef Öryrkjabandalagið fer í mál út af þessu og tel ekki líkur á því að dómstólarnir dæmi málið Öryrkjabandalaginu í hag. Mér þykir mjög miður ef til þess kemur að slík málssókn verði ákveðin

Hvað varðar útgjaldavandann í heilbrigðismálum þá tek ég undir að það eru vissulega stórar upphæðir sem fara í tryggingabætur, en það er rétt hjá hv. þingmanni að það eru einnig stórar upphæðir sem fara í launasamninga við heilbrigðisstarfsfólk. Við höfum bætt kjör heilbrigðisstarfsfólks mjög mikið á síðustu árum, gríðarlega mikið, og það kostar auðvitað mikla fjármuni að gera það og aukning útgjalda í heilbrigðismálum er auðvitað vegna þess.

Ég vil aðeins leiðrétta það sem mér fannst hv. þingmaður segja í ræðu sinni — hann leiðréttir mig þá ef ég hef tekið vitlaust eftir — að lyfjasparnaður hefði enginn orðið á árinu. Við höfum verið að vinna stórmerkilegt starf á árinu í sambandi við sparnað í lyfjum og höfum náð samningum um að lyfjaverð hér verði hið sama og á Norðurlöndunum á næstu tveimur árum. Það hefur náðst stórkostlegur árangur í þeim málum og ég vil halda því til haga í þessari umræðu.

Ég vil einnig halda því til haga og undirstrika það sérstaklega áður en ég skil við öryrkjamálið að ég hef ekki neina fordóma í garð öryrkja. Ég hef ætíð verið tilbúinn að berjast fyrir málum þeirra og þrátt fyrir þá leiðindahnökra sem komið hafa upp varðandi framkvæmd samkomulagsins, tel ég þetta samkomulag stórmerkilegt og tímamót, enda óskaði Öryrkjabandalagið sérstaklega eftir þessu samkomulagi á þingi sínu 1998 og það var stórmerkilegt skref að ná því fram.

Einnig verð ég að leiðrétta það að þessar viðræður mínar við Öryrkjabandalagið og formann þess voru búnar að standa í marga mánuði þegar við náðum þessari niðurstöðu. Þar á meðal áttum við Garðar Sverrisson einn fund með Halldóri Ásgrímssyni, það er hárrétt, og bárum málið undir hann. En það var ekki í tengslum við neinar skoðanakannanir um 8% fylgi Framsóknarflokksins í Reykjavík norður, það er alrangt, þær skoðanakannanir voru ekki til þegar við bárum þetta undir núverandi forsætisráðherra. Þetta var verkefni sem varð í rauninni til í viðræðum okkar Garðars Sverrissonar sem höfðu staðið svo mánuðum skipti og enduðu með þessari viljayfirlýsingu og handsali þann 25. mars í Þjóðmenningarhúsinu. Ég endurtek að mér finnst mjög miður hvernig umræðan um þetta mál hefur þróast og vona, satt að segja, innilega að menn geti haldið áfram að berjast fyrir kjörum öryrkja og fagna því góða samkomulagi sem við gerðum og tók gildi í fyrra.

Ég vil áður en ég lýk máli mínu drepa aðeins á að hv. þm. Jón Bjarnason, 8. þm. Norðvest., vék hér að einni heilbrigðisstofnun í framsöguræðu sinni, sem er heilsugæslustöðin í Lágmúla, og ég má til með að leiðrétta hv. þingmann eða hluta af því sem hann sagði. Hann taldi þá heilsugæslustöð vera dæmi um óráðsíu. (JBjarn: Nei, einkavæðingu.) Dæmi um einkavæðingu og einkavæðing er óráðsía í kolli hv. þingmanns. Það er samasemmerki þar á milli. En sannleikurinn er sá að ef stöðin í Lágmúla er borin saman við aðrar heilsugæslustöðvar hér á svæðinu þá eru laun lækna þar lægst og afköstin mest og stöðin er rekin með hagnaði eins og fram kom samkvæmt þjónustusamningi. Mér er mjög umhugað að koma þessu að vegna þess að þjóðin má ekki hafa það á tilfinningunni að það ágæta fólk sem hefur unnið ágætisstarf í þessari stöð sé eitthvert dæmi um einkavæðingu sem leiði til óráðsíu.

Það er hins vegar rétt sem Ríkisendurskoðun bendir á að óheimilt er að standa að lánveitingum til eigenda stöðvarinnar. Við munum auðvitað taka það upp. Við munum taka það upp við heilsugæsluna í Reykjavík að sjá um að eignaskrá verði gerð þar sem Lágmúlastöðin á ekki tækin á stöðinni. En ég vil endilega koma því á framfæri að það er unnið ágætisstarf á Lágmúlastöðinni og hefur verið svo lengi. Þar hefur m.a. verið sinnt erindum úr Voga- og Heimahverfi þar sem ekki er heilsugæslustöð en vonandi verður opnuð þar heilsugæslustöð á næsta ári. Við höfum verið að byggja upp heilsugæsluna í Reykjavík með markvissum hætti, hún hefur aukið afköst sín, m.a. með síðdegisvöktum. Risin er heilsugæslustöð í Salahverfi í Kópavogi þar sem reksturinn gengur mjög vel, en ég varð að verja þá ákvörðun utan dagskrár í þinginu að bjóða hana út. Sá rekstur gengur mjög vel og við erum að undirbúa opnun annarrar heilsugæslustöðvar í Hafnarfirði. Það er verið að þétta netið á höfuðborgarsvæðinu, komurnar hafa aukist þannig að kvartanir yfir þjónustu heilsugæslunnar hafa stórminnkað. Þær voru vissulega fyrir hendi fyrir þremur, fjórum árum, en hafa stórminnkað núna með auknum afköstum.