131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[16:56]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þá vitum við það, samkomulag heilbrigðisráðherra við Öryrkjabandalag Íslands hafði ekkert með kosningabaráttu Framsóknarflokksins að gera. Nei. Ég held, hæstv. ráðherra, að ekki sé hægt að bjóða hvorki Alþingi né almenningi á Íslandi upp á annan eins þvætting.

Ég harma það svo sannarlega ef hæstv. ráðherra ætlar ekki að koma hér við 3. umr. með tillögur um auknar fjárveitingar vegna samningsins við öryrkja, vegna þess að 500 milljónirnar voru ekki neitt sem Öryrkjabandalagið fann upp. 500 milljónirnar voru það sem Tryggingastofnun reiknaði út að beiðni heilbrigðisráðuneytisins og ráðherrann nefndi sjálfur í þessum ræðustól fyrir ári. Fyrir ári sagði hæstv. heilbrigðisráðherra í andsvari við mig að hann vantaði 500 milljónir til að uppfylla samninginn. Og hvernig er hægt að segja það fyrir ári og standa hér ári síðar og segja að það vanti ekki neitt til að uppfylla samninginn? (Forseti hringir.) Hvernig er það hægt, hæstv. heilbrigðisráðherra Jón Kristjánsson, án þess að roðna og blána af skömm?