131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[16:59]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hæstv. heilbrigðisráðherra talaði ekkert um óskir Öryrkjabandalagsins í þessum ræðustól. Það er hægt að fara í þingtíðindin. Ræða hæstv. heilbrigðisráðherra eða andsvar við ræðu minni í fyrra hlýtur að vera til hér á segulböndum. Hæstv. heilbrigðisráðherra sagði að sig vantaði 500 millj. til að uppfylla samkomulagið — ekki óskir Öryrkjabandalagsins.

Hvað viðvíkur góðum vilja hæstv. heilbrigðisráðherra um langan tíma í garð öryrkja þá dreg ég hana ekki í efa, en sú ríkisstjórn sem hann er hluti af níddist á öryrkjum árum saman þannig að þeir þurftu aftur og aftur að fara með hana uppi í Hæstarétt og flengja hana. Hæstv. heilbrigðisráðherra fékk ekki stuðning hæstv. forsætisráðherra Halldórs Ásgrímssonar til að setja peninga í sinn góða vilja til öryrkja fyrr en örvæntingin ein ríkti í kosningabaráttu Framsóknarflokksins vorið 2003. (Forseti hringir.)

Það er þess vegna fyrst og fremst hæstv. forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson sem reynist (Forseti hringir.) vera sá heigull að efna ekki samninginn þegar til kastanna kemur og (Forseti hringir.) láta hæstv. heilbrigðisráðherra ekki fá þær 500 milljónir sem (Forseti hringir.) hann svo gjarnan vildi fá. Um það efast ég ekki.