131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[17:12]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Landspítalinn er afgreiddur þannig í fjáraukalögum og á fjárlögum að aukafjárveiting til hans er tæplega 700 milljónir. Það er bætt inn í grunninn á spítalanum um 500 millj. kr. Hann er undanþeginn almennri hagræðingarkröfu sem er lögð á stofnanir og sem er í tilfelli Landspítalans um 260 millj. kr. Það er alveg ljóst að Landspítalinn þarf að sýna aðhald á næsta ári og stjórn og framkvæmdastjórn spítalans hefur undirbúið tillögur um það og þær tillögur eiga að langmestu leyti að viðhalda núverandi þjónustustigi spítalans.

Ég vil taka fram að þrátt fyrir þær hörðu umræður sem urðu um spítalann á síðasta ári þá hefur spítalinn (Forseti hringir.) sótt sig í starfsemi sinni á yfirstandandi ári og biðlistar þar hafa styst þvert ofan í það sem var (Forseti hringir.) sagt í umræðum hér fyrir ári síðan.