131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[17:15]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil undirstrika það enn og aftur að Landspítalinn er undanþeginn almennri hagræðingarkröfu. Hins vegar þarf hann auðvitað að hafa aðhald í rekstri eins og aðrar stofnanir. Ég býst við að þeir sem hafa hrópað hér hæst um bullandi þenslu ríkisútgjalda sem ógni stöðugleikanum, vilji að stofnanir hafi aðhald í rekstri. Það er staðreynd.

Varðandi heilsugæsluna, þá rakti ég það áðan að við erum að byggja hana upp með markvissum hætti á höfuðborgarsvæðinu. (Gripið fram í.) Við höfum ekki slæma reynslu af þeim tveimur stöðvum sem eru með annað rekstrarform en ríkisreknar heilsugæslustöðvar. Aðalatriðið er hvar við nýtum best þá fjármuni sem við leggjum í þetta. Við þurfum að finna það form sem hentar best til að veita þessa þjónustu og nýta fjármunina sem best.