131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[17:39]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil gjarnan spyrja hv. þingmann, af því að hún á sæti í fjárlaganefnd, hvort hún hafi þar gert einhverja tilraun með félögum sínum til að reyna að fá hækkuð framlög til atvinnumála kvenna. Það er mál sem þingmaðurinn þekkir nokkuð vel og veit að sjóðurinn um atvinnumál kvenna, sem hefur úr litlu að spila, eitthvað um 20 millj. kr., hefur gagnast konum vel m.a. til frumkvöðlastyrkja og veitt litlar fjárhæðir til kvenna sem hafa gert ótrúlega mikið. Fjárhæðin sem veitt hefur verið til sjóðsins hefur verið óbreytt í 10 ár. Ég veit að á þessu ári námu umsóknir í sjóðinn um 150 millj. kr. en hann hefur einungis úr að spila um 20 millj. kr. Ég spyr, af því að ég veit um áhuga þingmannsins, hvort hún hafi gert tilraunir til að auka fjármagn til þeirra mála.

Ég vil einnig spyrja þingmanninn um Fæðingarorlofssjóð. Það liggur fyrir að fæðingarorlofsgreiðslurnar hafa rýrnað verulega. Þær rýrna það mikið að fólk sem fer í fæðingarorlof á næsta ári fær ekki 80% af sínum launum í fæðingarorlof heldur einungis 74–75%. Hæstv. félagsmálaráðherra lofaði því á þessu ári þegar við ræddum um stöðu sjóðsins að hann mundi sjá til þess að greiðslur mundu ekki skerðast, þær yrðu 80% áfram að raungildi. Hvað segir hv. þingmaður um þetta? Hefur hún gert einhverja tilraun til að auka fjármagn í þann sjóð? Það vantar 400 millj. kr. í hann til að sjóðurinn geti staðið við að greiða 80% af tekjum viðkomandi í fæðingarorlofi. Þær 480 millj. kr. sem nú er verið að setja í hann við 2. umr. fara í allt annað, til að mæta fjölgun þeirra sem fá fæðingarorlofsgreiðslur. Önnur skýringin er sú að karlmenn fá þar meiri greiðslur en áður, sem sýnir okkur náttúrlega launamisréttið í skýrri mynd.