131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[17:44]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Drífu Hjartardóttur að ástæða er til að gleðjast yfir síauknum umsvifum símenntunarmiðstöðvanna. Þær hafa leitað til fjárlaganefndar ár eftir ár með beiðni um aukið fjárframlag til að standa undir starfsemi sem skilar ekki tekjum til stöðvanna, t.d. leiðbeiningarstarfsemi, auk þess sem verið er með alls konar bráðnauðsynleg námskeið sem standa ekki undir sér. Þar að auki standa sveitarfélög á landsbyggðinni undir kostnaði, bæði við tengingu og afnotagjöld af FS-netinu svokallaða, sem er háhraðanet símenntunarmiðstöðva framhaldsskóla og háskóla. Námsaðstaða fyrir fullorðið fólk í dreifbýlinu er þar að auki á kostnað sveitarfélaganna.

Ég minni á það enn og aftur að íbúar landsbyggðarinnar og íbúar þéttbýlissvæðanna Reykjavíkur og Akureyrar búa við mjög mismunandi aðstæður þar sem ríkið stendur straum af námsaðstöðu nemenda á þessum tveimur stóru stöðum, en veikburða sveitarfélög úti á landsbyggðinni þurfa að standa straum af kostnaði við bæði námsaðstöðu og háhraðanet. Þetta hefur ríkisstjórnin ekki viljað skilja og hvorki viljað koma til móts við sveitarfélögin né heldur við miðstöðvarnar, sem eins og ég sagði áðan fara fram á aukin fjárframlög af ástæðum sem þingmenn ættu að skilja mjög vel verandi vitni að því hvernig starfsemin eykst ár frá ári.