131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[18:37]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar til þess að gera smávægilega athugasemd út af fullyrðingum hv. þingmans um efnahagsleg áhrif skattalækkana sem við erum að leggja til. Hann hefur haldið því fram að efnahagslegu áhrifin yrðu slæm og þó svo mér liggi hlýr hugur til þingmannsins þá trúi ég ekki öllu sem hann segir um efnahagsmál eins og nýju neti. Ég trúi meira á fræðimenn eins og Guðmund Ólafsson sem er lektor í hagfræði við háskólann og er þingmanninum að góðu kunnur. Hann sagði í hádegisfréttunum á sunnudaginn um þessar skattalækkanir að allar stórkostlegar fullyrðingar um að þetta mundi ríða hagkerfinu á slig væru mjög úr öllu hófi og pólitískur áróður, áhrifin væru lítil og þær mundu einfaldlega hverfa í ölduróti hagkerfisins. Ég veit reyndar ekki um neinn annan fræðimann á þessu sviði sem hefur tekið undir þessar dómsdagsspár (Forseti hringir.) hv. þingmanns.

Mig langar til þess að spyrja hann: Fyrst hann hefur svona miklar áhyggjur af efnahagslegum áhrifum 4% skattalækkunar, hefur hv. þingmaður þá ekki sömu áhyggjur (Forseti hringir.) af áhrifum 33% (Forseti hringir.) kauphækkunar einstakra stétta í landinu?