131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[18:40]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Ég get svarað þessari spurningu þannig, frú forseti, að það stendur ekkert til að skera neitt niður í velferðarkerfinu. Við höfum verið að auka fjárframlög til velferðarkerfisins, bæði til almannatryggingakerfisins og heilbrigðiskerfisins.

Hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni hefur ekkert litist neitt sérstaklega vel á þessar skattalækkunartillögur sem við höfum verið að leggja til. Himinn og haf er á milli málflutnings hans um þær og fræðimanna á þessu sviði sem telja að áhrifin verði ekki svo orð sé á gerandi.

Eins og ég hef sagt hér áður þá skil ég ekki hvers vegna stjórnarandstaðan leggst svona þver gegn hugmyndum okkar um að auka kaupmátt fólksins í landinu. Af hverju vill stjórnarandstaðan ekki auka kaupmátt fólksins í landinu? Af hverju er stjórnarandstaðan svona mikið á móti launþegum? Af hverju heyrist ekkert í þessum þingmönnum, t.d. hv. 1. þm. Reykjavíkurkjördæmis norður, út af skattahækkunum sem hans flokkur stendur fyrir í Reykjavík og hækkunum á leikskólagjöldum í Reykjavík, en barnabæturnar sem við ætlum (Forseti hringir.) að hækka munu hverfa vegna þessara hækkana hans og hans manna? Af hverju heyrist ekkert í manninum?