131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[18:42]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Eins og þingmaðurinn veit þá hef ég mikla trú á Reykjavíkurlistanum. Ég held að Reykjavíkurlistinn hafi unnið borgarbúum ákaflega vel. Um leikskólagjöldin segi ég bara þetta við hv. þingmann: Spyrjum að leikslokum. Um útsvarshækkunina segi ég: (Gripið fram í: Spyrjum að leikslokum.) Ríkisstjórnin er með fjársvelti sínu gagnvart sveitarfélögunum að knýja þau til útsvarshækkana. Það er hæstv. fjármálaráðherra sem er ábyrgur fyrir því að sveitarfélögin neyðast nú til þess að hækka útsvar. (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Styður þú þær?)

Hv. þingmaður sagði að Sjálfstæðisflokkurinn og ríkisstjórnin ætluðu sér ekki að skera niður í hinni félagslegu velferð. Þá spyr ég hv. þingmann: Af hverju er þá ríkisstjórnin að hækka skólagjöld í Háskóla Íslands og öðrum háskólum um 40%? (Gripið fram í: Ekki skólagjöld.) Það er þegar byrjað, herra forseti.

Að öðru leyti verð ég að segja að (Gripið fram í: ... ekki svar.) mér fannst ýmislegt skynsamlegt koma fram (Forseti hringir.) í máli hv. þingmanns. En um hitt get ég ekki svarað honum. Ég mun gera það síðar.