131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[18:44]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Jú, það er svigrúm til skattalækkana. Ég hef verið að lýsa því. Þess vegna leggur Samfylkingin til að um mitt næsta ár verði matarskatturinn lækkaður um helming. Það þýðir útgjöld upp á 2,5 milljarða. Sömuleiðis hefur stjórnarandstaðan lagt til að barnabætur verði teknar upp árinu fyrr en ríkisstjórnin ætlar sér. Það eru líka útgjöld upp á 2,4 milljarða. Þetta eru útgjöld upp á 5 milljarða. Svigrúmið sem þetta fyllir upp í stafar að stærstum hluta af skattahækkunum þessarar ríkisstjórnar. Þessi ríkisstjórn hækkaði skatt um 4 milljarða á síðasta ári. Við erum að taka það niður aftur.

Þar að auki gerum við ráð fyrir því að vaxandi umsvif í samfélaginu geri það að verkum að hægt sé að fara í ákveðnar skattalækkanir. Við segjum hins vegar: Það er ekki hægt að gefa fólki fugla í skógi og það er ekki hægt að lofa skattalækkunum út á einhverja framtíð sem kemur að vísu í hugum hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins rétt fyrir kosningar. Auðvitað eru þeir að nota þetta bara til þess að kaupa sér atkvæði eins og þeir hafa orðið uppvísir að í gegnum tímann, eins og síðast.