131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[20:23]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við samanburð á fjárlögum undanfarinna ára og niðurstöðu ríkisreiknings kemur í ljós að áætlanir ríkisstjórnarinnar standast nær undantekningarlaust ekki. Fagrar áætlanir um margra milljarða afgang í árslok, sem fjármálaráðherra kynnir ævinlega með pompi og prakt og bros á vör, eru nær alltaf innstæðulausar. Halli reynist á ríkisrekstrinum þrátt fyrir að tekjuáætlanir ríkissjóðs reynist ætíð of lágar, sem undirstrikar enn vitlausar útgjaldaáætlanir.

Við samfylkingarmenn höfum haldið því fram að ríkisstjórnin setji vísvitandi fram rangar áætlanir í fjárlögum. Tilgangurinn er sá að auglýsa góð tök á fjármálum ríkisins. Það er gert í trausti þess að almenningur taki ekki eftir niðurstöðum ríkisreiknings þegar hann birtist. Það er jafnframt athyglisvert að ekki er blásið til kynningarfundar þegar ríkisreikningur er birtur. Í raun er ærnara tilefni til blaðamannafundar þá en að auglýsa fjárlög, sé ætlunin að fjalla um tök ríkisstjórnarinnar á fjármálum. Þá liggja þau fyrir þau tvö plögg sem verður að bera saman ef fjalla á um ríkisfjármál á efnislegum forsendum, þ.e. fjárlög og ríkisreikningur. Það eitt er raunverulegur vitnisburður um fjármálastjórnina. En á því prófi fær ríkisstjórnin ekki háa einkunn, samanber nýútkomna skýrslu Ríkisendurskoðunar um ríkisreikning.

Ríkisstjórnin fær heldur ekki háa einkunn hjá þeim meiri hluta landsmanna sem situr eftir með sárt ennið eftir nýboðaðar breytingar á skattkerfinu. Allar skattbreytingar miða að því að skara eld að köku þeirra best settu en láta þá verr stærðu í samfélaginu sitja eftir við kulnaðar glæður. Undantekningin er hækkun barnabóta en framkvæmd þeirra er slegið á frest til næstu ára. Það er brýnna, að mati Sjálfstæðisflokks og Framsóknar, að færa 25% þeirra tekjuhæstu 2,5 milljarða kr. skattalækkun en að hækka barnabætur á næsta ári.

Þessi 25% Íslendinga, þeir moldríku, fá helming upphæðarinnar sem varið er í skattbreytingar á næsta ári í sinn hlut á meðan aðeins 300 millj. kr. koma í hlut hinna 25% sem lægstar hafa tekjurnar. Hvor hópurinn hefur meiri þörf á að skattkerfið sé honum hliðhollt, virðulegi forseti? Þessi leið er valin frekar en lækka matarskatt, eins og tillögur Samfylkingarinnar hljóða upp á, þrátt fyrir að sú leið gagnist öllum þegnum landsins og komi best þeim sem lægstar hafa tekjurnar, barnafólki og öðrum sem verja hlutfallslega stærstum hluta tekna sinna í matarinnkaup.

Skattalækkunaraðferð ríkisstjórnarinnar mun enn auka á hagstjórnarvandann sem var þó ærinn fyrir og áhyggjuefni. Hún getur leitt til vaxandi verðbólgu á næstu missirum á meðan lækkun matarskattsins um helming, eins og Samfylkingin leggur til, mundi lækka neysluvísitöluna og þar með skuldabyrði landsmanna.

Hið undarlega í þessu dæmi er að flokkurinn sem vill kenna sig við félagshyggju, Framsóknarflokkurinn, stendur í vegi fyrir því að lækkun matarskatts verði að veruleika. Það hefur verið staðfest í sölum Alþingis í dag og áður, bæði af þingmönnum Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. En forgangsröðun ríkisstjórnarinnar er skýr og kemur ekki á óvart. Mokað er í þá sem betur mega sín en allur almenningur situr eftir. Skólagjöld hækkuð á námsmenn, hækkun komugjalda á sjúklinga, barnabótum frestað, lækkun matarskatts hafnað en hátekjuskattur lækkaður um helming, eignarskattur felldur niður og almennur tekjuskattur lækkaður þannig að láglaunafólk með 150 þús. kr. á mánuði fær minna en tvo bíómiða á mánuði á meðan framkvæmdastjóri með hálfa millj. kr. á mánuði fær tæpar 8 þús. kr. á mánuði í skattalækkun eða tæplega 100 þús. kr. á ári.

Auk ranglætisins eru aðferðir ríkisstjórnarinnar í skattamálum þensluhvetjandi og það á tímum sem allir vita að sérstakrar aðgæslu er þörf.

Ég kynni hér breytingartillögur frá hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni, Önnu Kristínu Gunnarsdóttur, Helga Hjörvar, Jóni Gunnarssyni og Guðjóni Arnari Kristjánssyni. Þær eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi, varðandi skatttekjur. Þar leggjum við til að tekjuskattur á einstaklinga og staðgreiðsla hækki um 4.750 millj. kr. Þetta má rekja til þess að við viljum ekki að tillögur stjórnarflokkanna um tekjuskattslækkun nái fram að ganga. Það skilar 4 milljörðum auk þess sem 750 millj. eru áætlaðar vegna herts skatteftirlits. Við teljum það varlega áætlað. Tekjuskattur lögaðila hækki um 100 millj. og skýringin á því er hin sama og að ofan. Við ætlum að efla skatteftirlit.

Varðandi virðisaukaskatt þá áætlum við 1,5 milljarða kr. í útgjaldaauka. Tillögur okkar gera ráð fyrir helmingslækkun matarskatts frá miðju ári sem kostar 2,5 milljarða kr. en á móti kemur milljarður í tekjur vegna herts skatteftirlits. Heildarútgjöldin á hálfu næsta ári til matarskattslækkunar eru 2,5 milljarðar kr.

Við gerum ráð fyrir tilflutningi frá lið 01-190 Ýmis verkefni undir forsætisráðuneyti til liðar 00-201 Alþingi, 10 millj. kr. Það á rætur að rekja til þess er Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, gaf til kynna, þegar Þjóðhagsstofnun var lögð niður á sínum tíma, að ástæða kynni að vera til þess að koma upp sérstakri hagdeild á Alþingi. Komið hefur í ljós, sérstaklega í störfum fjárlaganefndar og efnahags- og viðskiptanefndar, að brýn þörf er á að koma upp slíkri þjónustu við Alþingi.

Við leggjum til að liður 03-300 Sendiráð Íslands verði lækkað um 111,6 milljónir og ódýrara húsnæði verði keypt eða leigt undir sendiherra í Berlín.

Liðurinn Ýmis verkefni 06-190 fjallar um mannréttindamál og fellur undir tvö ráðuneyti eins og kom fram fyrr í dag, þ.e. dómsmálaráðuneytið og utanríkisráðuneytið. Við leggjum til að Mannréttindaskrifstofa Íslands og Mannréttindastofnun Háskóla Íslands komi inn á sitt hvorn fjárlagaliðinn og leggjum til ½ millj. kr. hækkun á Mannréttindaskrifstofu Íslands en 600 þús. kr. hækkun á Mannréttindastofnun Háskóla Íslands.

Mannréttindaskrifstofa Íslands er eina stofnunin hérlendis sem sinnir tengslum við sambærilegar stofnanir erlendis, þar á meðal á Norðurlöndum, og er hluti af mjög mikilvægu tengslaneti. Önnur samtök á Íslandi, m.a. Mannréttindastofnun Háskóla Íslands, fást við rannsóknir, gagnlegar og merkilegar rannsóknir en það er eðlisólíkt því starfi sem Mannréttindaskrifstofa Íslands fæst við í grundvallaratriðum.

Mannréttindaskrifstofa Íslands er stofnun sem tekur að sér að gæta hagsmuna borgaranna almennt og leiðbeina þeim, m.a. gagnvart hinu opinbera. Það er því óeðlilegt og óæskilegt að stofnunin sé háð velvilja stjórnvalda hverju sinni og að starfi hennar sé stefnt í tvísýnu með þessum hætti. Það er nauðsynlegt að stofnuninni sé markaður sérfjárlagaliður eins og verið hefur.

Fyrir nokkrum árum hugðust Danir breyta fyrirkomulaginu hjá sér á svipaðan hátt og lagt er til í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar, þ.e. að leggja starfsemi skrifstofunnar undir aðra stofnun og gera hana þannig ósjálfstæða og öðrum háða. Þeir sögðu forstöðumanni stofnunarinnar upp en fengu í kjölfarið hávær mótmæli frá mannréttindaskrifstofum á öðrum Norðurlöndum og víðar um Evrópu og frá Sameinuðu þjóðunum. Í kjölfar víðtækra mótmæla drógu þeir í land, endurréðu forstöðumanninn sem gegnir starfi sínu enn í dag og stofnunin hélt tryggum sessi sínum.

Ef það er ætlun ríkisstjórnar Íslands að breyta fyrirkomulagi mála varðandi Mannréttindaskrifstofu Íslands þá er afar óheppilegt að gera það á þennan hátt, þ.e. án fyrirvara. Ef ríkisvaldið ætlar sér slíkt þá er talið að a.m.k. þurfi þrjú ár til að undirbúa breytingarnar, aðlaga starfsemi stofnunarinnar breyttum forsendum og finna henni annan rekstrargrundvöll. Mannréttindaskrifstofa Íslands vinnur jafnt fyrir hið opinbera sem aðra aðila, skrifar skýrslur og er upplýsingamiðill. Þetta starf hefur verið til fyrirmyndar og komið að góðum notum, m.a. í starfsemi utanríkisráðuneytisins og starfsmenn þess hafa fært skrifstofunni þakkir fyrir það. Í tíð Halldórs Ásgrímssonar sem utanríkisráðherra tryggði Framsóknarflokkurinn stöðu skrifstofunnar í utanríkisráðuneytinu og þá var staðinn vörður um hana. Ég vona að framsóknarmönnum renni nú blóðið til skyldunnar og þeir komi skrifstofunni til stuðnings þrátt fyrir þann niðurskurð sem boðaður er í fjárlögum.

Á lið 06-395 Landhelgisgæsla Íslands leggjum við til 80 millj. kr. aukafjárframlag sem er ætlað til að efla rekstur við að halda skipum Gæslunnar betur úti en nú er og til að sinna viðhaldi.

Í lið 07-701 Málefni fatlaðra leggjum við til 30 millj. kr. viðbót. Það er til að mæta biðlistum, en þar er vandinn mestur í Reykjavík. Raunhækkun til málefna fatlaðra í Reykjavík er aðeins um 10 millj. kr. vegna þess að þó að í frumvarpinu standi að hækkunin sé 30 milljónir var stofnuninni gert að spara um 20 milljónir og mismunurinn þar á er aðeins 10 milljónir, sem er allt of lítið fyrir viðkomandi stofnun.

Í Atvinnuleysistryggingasjóð leggjum við til 150 millj. kr. hækkun til að atvinnulausir fái greidda desemberuppbót en atvinnulausir eru meðal fárra landsmanna sem ekki fá slíka uppbót. Fatlaðir fá desemberuppbót, einnig öryrkjar, þeir sem fá stuðning frá Félagsþjónustu Reykjavíkur og sennilega frá flestum öðrum bæjarfélögum fá líka desemberuppbót en ekki þessi eini hópur, þ.e. atvinnulausir, sem þó þarf örugglega ekki síður en aðrir á henni að halda.

Liðurinn 08-305 Lýðheilsustöð, þar leggjum við til 30 milljónir sem eiga að fara til að efla forvarnir.

Liðurinn Heilbrigðismál, ýmis starfsemi, þar leggjum við til 200 millj. kr. hækkun og þar er gert ráð fyrir að komið sé til móts við mikinn vanda sem glímt er við um allt land varðandi hjúkrunarrými. Vandinn er mikill í Reykjavík en hann er einnig fyrir hendi víða úti á landsbyggðinni.

Í liðnum 09-250 Innheimtukostnaður gerum við ráð fyrir 200 millj. kr. viðbót sem fari til að herða skatteftirlit en það er öruggt að slíkt eftirlit skilar árangri og álíta ýmsir, sem vel þekkja til, að upphæðin sem í það er lögð skili sér tífalt. Það er því til nokkurs að vinna, en að efla þá starfsemi er eitt af því sem ríkisstjórnin hefur þverskallast við að gera þrátt fyrir vitneskjuna um þetta. Við leggjum til að liður 09-999 Ýmislegt sé felldur niður en þar er um að ræða 10 millj. kr. framlag sem átti að fara til að endurnýja allar bifreiðir ráðuneyta. Við teljum það óþarfa.

Á lið 11-411, lið Byggðastofnunar, höfum við sett 150 millj. kr. í atvinnuþróunarátak. Víða á landsbyggðinni er mjög bágt ástand í atvinnumálum, fólksfækkun og miklir erfiðleikar og tekjur manna mjög lágar. Við teljum því brýna nauðsyn að koma landsbyggðinni til aðstoðar á vissum svæðum með fjármagni til atvinnusköpunar. Byggðastofnun hefur haft úr ákveðnu fjármagni að spila sem var lagt fram í tengslum við, eða fyrir síðustu kosningar. Það hefur komið sér ágætlega svo langt sem það nær, þó það færi að vísu á takmarkað landsvæði, því miður, en það sýnir þó hve miklu getur munað um svona aðgerðir. Þegar verið er að vinna að nýsköpun, hvort sem er úti á landsbyggðinni eða annars staðar, þá geta lágar fjárhæðir oft skipt miklu máli.

Til Samkeppnisstofnunar leggjum við til að verði veittar 100 millj. kr. aukalega. Þarna er um stórt mál að ræða og stofnunina vantar fjármuni til að hún geti sinnt málum á viðunandi tíma og við höfum einmitt nýleg dæmi um hversu skaðlegt það er að rannsóknir taki jafnlangan tíma og raun bar vitni t.d. varðandi olíumálið, og við höfum reyndar fleiri dæmi um slíkt.

Við 6. gr. leggjum við til að önnur útgjöld ráðuneyta verði lækkuð um 600 millj. Við leggjum til að yfirfærsla ónotaðra heimilda ráðuneyta frá því í fyrra verði lækkuð um 5 milljarða, að ferða- og risnukostnaður ráðuneyta verði lækkaður um 600 milljónir og að sérfræðikostnaður A-hluta stofnana verði lækkaður um 1.300 milljónir. Það er ekki langt síðan kom fram í skýrslu frá Ríkisendurskoðun sem fjallaði um þessi mál að líklegt væri að þarna mætti ná fram umtalsverðum sparnaði. Við viljum líka selja eignir ríkissjóðs erlendis fyrir 1 milljarð og láta andvirðið renna í ríkissjóð og teljum að hagkvæmara sé að leigja og oft sé hægt að kaupa ódýrara húsnæði en t.d. sendiráð Íslands eru í erlendis.

Við flytjum allmargar breytingartillögur við þessa umræðu fjárlaga sem miða allar að því að jafna aðstæður landsmanna og bæta hagstjórnina. Þrátt fyrir útgjaldatillögur okkar gera tillögurnar í heild ráð fyrir rúmlega milljarði í aukinn tekjuafgang ásamt því að við gerum ráð fyrir að nýtingu 5 milljarða heimildar verði frestað en komið hefur fram að ónotaðar heimildir undanfarin ár skipta milljörðum ár hvert. Á seinasta ári nam sú upphæð 16 milljörðum, sem hlýtur að vera enn ein vísbendingin um að einhvers staðar sé pottur brotinn í áætlanagerð ríkisstjórnarflokkanna.