131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[20:43]

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er búinn að heyra töluvert af skrýtnum hlutum í dag en ég hrökk við í upphafi ræðu hv. þingmanns þegar hún sagði að ríkisstjórnin kæmi vísvitandi með rangt fjárlagafrumvarp. Og hún bætti við að ekkert væri að marka endanlegt fjárlagafrumvarp vegna þess að það stæðist ekki miðað við ríkisreikninginn. Hæstv. forseti, þingmenn verða aðeins að gæta sín í því sem þeir láta frá sér fara í þessari pontu. Hvað í ósköpunum á hv. þingmaður við? Getur þingmaðurinn sagt hvað er rangt í endanlegum fjárlögum landsins nú eða áður? Getur þingmaðurinn sagt hvað er rangt í ríkisreikningnum hér eða áður? Hvað var hv. þingmaður að reyna að segja? Var hún að reyna að segja að ekkert væri að marka þessa hluti? Getur það verið? Ég trúi því ekki. Þetta hlýtur að hafa verið einhver stórkostlegur misskilningur hjá hv. þingmanni að láta þessi orð út úr sér.

Ríkisreikningur Íslands er eins og ríkisreikningar allra annarra vestrænna þjóða byggður á tillögum og gerðum Sameinuðu þjóðanna sem hafa þróast á mjög tæknivæddan hátt og af mikilli nákvæmni. Ef menn segja að það sé ekkert að marka þetta, að ríkisreikningurinn passi ekki við endanleg fjárlög, lokafjárlög, þá eru menn að segja alveg hroðalega hluti. Þá hljóta menn að standa frammi fyrir því að þurfa skýra fyrir þingheimi hvað í ósköpunum þeir vildu sagt hafa.