131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[20:45]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég stend ekki í þeirri trú að ríkisstjórnin hafi áhrif á gerð ríkisreiknings og var ekki að tala um að þær niðurstöður væru gerðar fyrir tilstilli ríkisstjórnarinnar eða þar væri ríkisstjórnin með puttana í. Ég sagði að ég væri að tala um fjárlögin og það veit þingmaðurinn mætavel. Það sem ég átti við var m.a. reynsla okkar fjárlaganefndarmanna á síðasta ári þegar forstöðumönnum ríkisstofnana var sent bréf þar sem þeim var bannað að koma á fund fjárlaganefndar. Eftir að við fjárlaganefndarmenn stjórnarandstöðunnar höfðum kallað ýmsa forstöðumenn á okkar fund þá sáum við svart á hvítu að það var verið að halda tölum í fjárlagafrumvarpinu vísvitandi lægri en ríkisstjórnarflokkarnir vissu að þörf var á, enda kom það fram strax eftir áramót að fluttar voru tillögur um hækkun sem samsvaraði nákvæmlega þeim upphæðum sem forstöðumenn stofnana voru að fara fram á þegar þeir mættu á fund okkar fyrir áramótin. Mat þeirra á þörf fyrir rekstrarfé reyndist rétt. En það var hins vegar vilji ríkisstjórnarflokkanna að það kæmi ekki fram í frumvarpinu af því að þeir vilja, eins og við höfum margoft séð, sýna fram á glansmynd.