131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[20:47]

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var nú fróðlegt. Hér kemur hv. þingmaður og talar um allt annað mál en ég var að spyrja hana um. Ég var að spyrja hana hver væri mismunurinn og hvar væri villan gagnvart ríkisreikningnum eða lokafjárlögunum. Ég fékk ekkert svar við því heldur for hún að segja frá því hvernig forstöðumenn ríkisfyrirtækja hefðu gert athugasemdir við fjárlagagerð sína. Það er ekkert þessu máli viðkomandi.

Ég vil taka það fram, herra forseti, að við erum með skýrslu frá Ríkisendurskoðun sem staðfestir það í einu og öllu að auðvitað er ríkisreikningurinn sambærilegur á allan hátt við lokafjárlögin. Auðvitað er það þannig. Það er fjarstæða ef einhver hv. þingmaður vill kasta fram hlutum eða reyna að villa mönnum sýn um það að hér sé um einhverjar villur að ræða.

Það kom ein athugasemd sem við ræddum reyndar fyrr í dag, ein athugasemd um bókhald þar sem ég held að Ríkisendurskoðun geti vel hafa haft rétt fyrir sér. Það var hvernig við færum tekjurnar í Lífeyrissjóð ríkisstarfsmanna, hvort við færum það nettó miðað við skuldbindingar eða færum það beint. Þetta skiptir engu máli um uppgjörið. Ríkisendurskoðun getur vel haft rétt fyrir sér. Það skiptir engu máli. En hv. þingmaður hlýtur að fara yfir þau orð sem hún viðhafði í upphafi ræðu sinnar og ég veit að hún er með prentaða fyrir framan sig og íhuga að það hljóti að vera ábyrgðarhluti að koma og segja slíkt á Alþingi.