131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[20:51]

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins leggja orð í belg við 2. umr. fjárlaga. Eru það einkum sjónarmið sem fram hafa komið frá stjórnarandstæðingum sem eru mér tilefni til þess að koma hér upp og reifa nokkur atriði sem mér finnst skipta miklu máli þegar fjárlög eru rædd.

Um nefndarálit meiri hluta fjárlaganefndar sérstaklega vil ég vísa til framsöguræðu formanns nefndarinnar og þess sem áður hefur komið fram um þær áherslubreytingar sem gerðar eru með breytingartillögum sem fylgja nefndarálitinu. Samkvæmt þeim breytingum sem gerðar hafa verið á upphaflegu frumvarpi þá er niðurstaða reikningsins sú að tekjujöfnuðurinn verður rétt rúmir 10 milljarðar. Ég ætla ekki að fara nánar út í einstakar breytingartillögur við frumvarpið. Ég tel að það hafi verið gert ágætlega í fyrri ræðum um málið.

Fjárlagafrumvarpið hefur við 2. umr. líkt og við 1. umr. verið allharkalega gagnrýnt af stjórnarandstæðingum. En bæði stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar hafa verið sammála um það, og það allt frá því fyrir síðustu kosningar, að mikilvægt sé að beita fjárlögum sem öflugasta tækinu sem við alþingismenn höfum til að takast á við krefjandi verkefni í hagstjórninni. Við vitum öll að núna standa yfir og munu á næstu árum standa yfir mestu framkvæmdir Íslandssögunnar hvorki meira né minna. Hagfræðingar sem og stjórnmálamenn hafa verið sammála um að á því mikla vaxtarskeiði sem er fram undan skiptir miklu máli hvernig peningastefna ríkisins er rekin og hvernig fjárlögum þá einkum er beitt við þessar krefjandi aðstæður.

Við vitum líka öll að hætta er á ákveðnum neikvæðum áhrifum. Og þeim mun verr sem tekst til þeim mun meiri verða hin neikvæðu áhrif ef plön þau sem liggja fyrir um langtímaáætlun ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum til grundvallar ganga ekki eftir. Allir geta verið sammála um að þetta er krefjandi verkefni og menn eru almennt sammála um það held ég. Ég held að það endurspeglist svolítið í umræðunni sem á sér hér stað í dag. Verkefnið er að tryggja áfram stöðugleika. Við viljum ekki sjá þenslu. Við viljum ekki aftur sjá háa verðbólgu. Við vitum að slíkt leiðir til kjaraskerðingar. Um þetta eru allir sammála.

Hins vegar hefur í dag komið fram og dálítið kristallast í umræðunni ágreiningur milli stjórnarliða og stjórnarandstæðinga um hvort þær aðgerðir sem stjórnarflokkarnir standa fyrir með þessu fjárlagafrumvarpi og hafa kynnt að þeir hyggist standa fyrir á næstu árum, m.a. í langtímaáætlun sinni, séu líklegar til að skila nauðsynlegum árangri í þessu efni. Við höfum sagt, og það kemur fram í þessu fjárlagafrumvarpi, að stefnt er að því að ekki verði meira en 2% vöxtur á samneyslunni á ári á næstu árum. Það er skýrt markmið. Að mínu áliti styðja þær skattalækkanir sem nú hafa verið kynntar við þetta markmið þar sem þær draga þá úr því svigrúmi sem stjórnvöld hafa til þess að auka við útgjöld sín.

Staðan er sú að í stað þess að láta ríkissjóð skila gríðarlegum tekjuafgangi þá er tekin sú pólitíska ákvörðun að skila því svigrúmi sem myndast á þessu hagvaxtarskeiði sem er fram undan til einstaklinganna og ég get farið aðeins inn á það hér. Mér sýnist að menn hafi talið þessa 2. umr. um fjárlög tilefni til að fara aftur yfir lögin um tekjuskatt og eignarskatt. Ég held að það sé sjálfsagt að gera það þá aðeins hér þar sem því er haldið fram í umræðunni að þær breytingar sem þar eru lagðar til, og fjárlagafrumvarpið m.a. byggir á, hafi þveröfug áhrif við það sem stefnt er að.

Hátekjuskatturinn hefur verið felldur niður. Erfðaskatturinn hefur verið lækkaður. Tekjuskatturinn hefur verið lækkaður eða til stendur að lækka hann með þeim frumvörpum sem liggja fyrir þinginu og jafnframt mun eignarskatturinn þá hverfa verði það frumvarp að lögum og virðisaukaskatturinn er næstur. Menn hafa gert mikið úr því í umræðunum í dag og gerðu jafnframt í umræðu um frumvarp um tekjuskatt og eignarskatt, frumvarpið sem við ræddum á þinginu í vikunni, að ekki skuli ráðist á virðisaukaskattinn strax. En þeir sem blanda sér í þá umræðu og koma fram með þá athugasemd vita líka alveg jafnvel og ég að það er sérstaklega tekið upp í stjórnarsáttmála stjórnarflokkanna að ráðist verði í endurskoðun á virðisaukaskattskerfinu til hagsbóta fyrir almenning. Við í Sjálfstæðisflokknum höfum sérstaklega sagt að að okkar áliti ætti að lækka lægra skattþrepið.

Um hvað er þá verið að deila í raun og veru? Er verið að deila um að þetta eigi að gera fyrst en ekki hitt? Eru menn að segja að það sé meira svigrúm en við erum að leggja upp með í þeim málum sem kynnt eru til lækkunar á sköttum, meira en við erum að halda fram? Er svigrúmið meira? Sérstaklega verður maður var við þetta í málflutningi Samfylkingarinnar. Því er á aðra höndina haldið fram að skattalækkanirnar sem ríkisstjórnarflokkarnir eru að kynna muni verða þensluhvetjandi og ýta verðbólgunni af stað og þar með valda kjaraskerðingu. En á hina höndina er um leið sagt að það sé fullt svigrúm til að lækka skatta og jafnvel tíndir til fleiri skattar en ríkisstjórnarflokkarnir leggja til að ráðist verði í að lækka nú á þessu þingi. Þessi málflutningur fer alls ekki saman.

Það liggur jafnframt alveg ljóst fyrir hvernig ríkisstjórnin hyggst bregðast við þegar hægir á hagvextinum, þegar við sjáum fyrir endann á hagvaxtarskeiðinu sem við horfum núna fram á. En vel að merkja þá er hagvaxtarskeiðið sem nú er að hefjast það lengsta sem nokkurn tíma hefur verið spáð. Aldrei áður í ríkisfjármálunum eða lýðveldissögunni hefur verið spáð jafnlöngu hagvaxtarskeiði og núna liggur fyrir. Í fyrri hluta frumvarpsins þar sem fjallað er um stefnu og horfur á bls. 5 má sjá að hagvexti er spáð þar alveg fram til ársins 2008 og jafnvel lengur. Þegar stjórnarandstæðingar koma hér í ræðustól og benda á stjórnarliðana og segja að þessir menn séu ekki líklegir til að valda því krefjandi verkefni sem er fram undan, þá eru þeir því að benda á mennina sem hafa lækkað skatta, eru að lækka skatta, eru búnir að tryggja hagvöxtinn, ekki einungis á undanförnum árum heldur fram til ársins 2008 samkvæmt fyrri hluta fjárlagafrumvarpsins. Þeir eru að benda á mennina sem leggja til að hækka barnabætur. Þeir eru að benda á mennina sem hafa stóraukið framlag til menntamála, stóraukið framlög til heilbrigðismála og þeir eru að segja um leið: „Þessir menn ætla að ráðast á velferðarsamfélagið.“ (Gripið fram í.) Þetta eru stjórnarflokkarnir sem hafa verið að greiða niður skuldir, bæta við í lífeyrissjóði opinberra starfsmanna til að tryggja að þeir sjóðir geti staðið undir þeim skuldbindingum sem þeir hafa tekið á sig. Maður hlýtur auðvitað að spyrja sig: Hver á að trúa þessum málflutningi? Þetta er fullkomlega ósannfærandi.

Mikið er gert úr því í þessari umræðu að á undanförnum árum hafi ríkissjóður verið rekinn með gríðarlega miklum halla. Ég verð að segja að ég hélt að sú umræða hefði í raun og veru verið tæmd við 1. umr. frumvarpsins eða jafnvel við 1. umr. fjáraukalagafrumvarpsins. Ég vék að þessu máli fyrr í kvöld í andsvörum við hv. þm. Össur Skarphéðinsson, en það gengur auðvitað ekki að menn beri fjárlagafrumvarp vísvitandi saman við ríkisreikning án nokkurra skýringa. Það gengur einfaldlega ekki upp. Ein augljós staðreynd er sú að í millitíðinni eru samþykkt fjáraukalög. Þessi samanburður tekur ekkert tillit til þess, ekki nokkurt.

Í öðru lagi skekkist myndin við það að ríkið selur af eignum sínum og þar með aukast tekjurnar. Oft þegar það gerist er einmitt tekin um leið sérstök ákvörðun um að verja þeim tekjum sem þannig myndast, þegar til verða nýjar tekjur við það að eignir eru seldar yfir bókfærðu verði, í einhverjum ákveðnum tilgangi til að mynda til þess að greiða inn í lífeyrisskuldbindingar. Það er ekkert tillit tekið til þess þegar þessi samanburður er gerður.

Eins og ég vék að í fyrri ræðu minni í dag nemur hinn raunverulegi afgangur, sem stjórnarandstæðingar hafa haldið fram í þessari umræðu að sé um 80 milljarðar í mínus, um 95 milljörðum í plús. Það er það sem fjárlagafrumvarpið hefur í raun og veru skilað í afgang frá árinu 1998 og um það hafa farið fram umræður eins og ég sagði áður. Ég vík að þessu í tilefni af því að menn eru að rifja þessi mál upp aftur núna við 2. umr. um fjárlagafrumvarpið en umræðan um þetta var að mínu áliti tæmd fyrr í vetur. Afgangurinn frá 1998–2003 er 95 milljarðar. Það svarar til 16 milljarða tekjuafgangs á hverju ári eins og kom fram í máli hæstv. fjármálaráðherra í þeim umræðum sem fóru fram fyrr.

Ég vék að því í ræðu minni að kaupmátturinn hefði vaxið. Það er í sjálfu sér alveg rétt að þegar ákvörðun var tekin um hinar miklu skattalækkanir sem birtast í frumvarpinu um tekjuskatt og eignarskatt er ákveðin hætta á þensluáhrifum. En hvert er öflugasta tækið til þess að sporna gegn því að þenslan fari af stað eða muni fram? Öflugasta tækið er það að haldið verði þétt um taumana í opinberum fjármálum. Þar skiptir launaþróun opinberra starfsmanna höfuðmáli og auðvitað verður jafnframt að halda í taumana við útgjöld ríkisins.

Hins vegar halda stjórnarandstæðingar og þá einkum þingmenn frá Vinstri grænum því fram að ekki sé nóg að gert í útgjöldunum. Það er ekki nóg með að þeir vilji ekki skattalækkanirnar heldur vilja þeir beinlínis nota meira og minna allan afganginn sem fyrirsjáanlegur er í hrein ríkisútgjöld. Það er þvert á þá sátt sem ég taldi vera hér bæði fyrir kosningar og eftir um að gæta þyrfti aðhalds í opinberum útgjöldum. Og Vinstri grænir skirrast ekki við að halda því fram alveg kinnroðalaust að verið sé að skera niður í menntamálum og heilbrigðismálum. Á háskólastiginu eingöngu hefur verið aukið við útgjöldin að jafnaði um 1 milljarð á ári frá árinu 2000.

Ef menn skoða heilbrigðis- og tryggingamálin sem eina summu nokkur ár aftur í tímann sjá menn mjög glögglega að þar hefur verið aukið við ekki svo nemur einstökum milljörðum heldur tugum milljarða. Búið er að bæta tugum milljarða í þann málaflokk. Svo koma menn hér upp og segja að stjórnarliðar séu að skera niður í velferðarkerfinu.

Þegar við höfum horft fram á að gjaldaáætlanir fjárlagafrumvarpsins hafi ekki staðist, og það hefur vissulega gerst og er ekkert einsdæmi að það hafi gerst á undanförnum árum vegna þess að það hefur gerst í ríkisfjármálunum í gegnum tíðina, það er ekki hægt að sjá alla hluti fyrir vegna þess að fjárlagafrumvarpið er auðvitað einungis áætlun í ríkisfjármálum, en hvaða liðir eru það þá sem þarf að bæta í með fjáraukalögum? Það eru heilbrigðismál og menntamál. Það eru liðirnir sem bætt er í ár eftir ár. Þrátt fyrir það er því haldið fram að verið sé að skera niður.

Það heitir nefnilega niðurskurður hjá stjórnarandstæðingum þegar menn reyna að setja sér metnaðarfull markmið um tekjur og útgjöld á þessu sviði eins og öðrum. Þegar stjórnarflokkarnir kynna markmið um að reyna að halda samneyslunni niðri og að gæta að því að vöxturinn fari ekki úr hófi heitir það niðurskurður hjá stjórnarandstæðingunum vegna þess að þeir eru ósáttir við að útgjöldin séu ekki það sem þeir kalla raunhæf. Ef þeir síðan reynast hafa rétt fyrir sér, sem vissulega kemur fyrir, að útgjöldin hafi að einhverju leyti verið vanmetin, er að sjálfsögðu komið til móts við það í fjáraukalögum en þá er það aftur kallað niðurskurður hjá stjórnarflokkunum í viðkomandi málaflokki. Þessi málflutningur stenst auðvitað enga skoðun. Það er ekki flókið að fara í þennan samanburð og skoða þetta í prósentum eða í krónutölum eins og ég vék að.

Varðandi þær aðgerðir sem verið er að leggja til í skattamálum og um leið í ríkisfjármálunum almennt þá skiptir aðvitað meginmáli, eins og ég vék að í upphafi máls míns, að okkur takist að halda verðbólgunni niðri og viðhalda þeirri stöðugu kaupmáttaraukningu sem hefur átt sér stað. Hvernig hefur hún verið? Jú, laun allra hafa verið að hækka umfram verðlag, það er einfaldlega svo. Bætur hins opinbera hafa verið að aukast meira að kaupmætti en meðallaun. Kaupmáttur meðallauna hefur ekki hækkað eða vaxið jafnmikið og lágmarkslauna eða bóta.

Það kemur enn og aftur fram að það sama verður upp á teningnum ef þær áætlanir sem nú liggja fyrir í frumvarpsformi ganga eftir. Þetta má sjá ágætlega í vefriti fjármálaráðuneytisins sem gefið var út í dag, þannig að ég leyfi mér, virðulegi forseti, að vísa til þess að þar er tekið dæmi af barnlausum hjónum sem hafa 2 millj. í tekjuskattsstofn. Þau hjón sjá fram á að ráðstöfunartekjur þeirra aukist um 112 þús. kr. á ári eða tæp 6% sem er í formi niðurfellingar á skatti sem þau greiða nú en munu ekki greiða árið 2007. Í þessu dæmi er ekki tekið tillit til þess að tekjur þeirra geti hækkað á næstu þremur árum. Ráðstöfunartekjur þeirra aukast um 6%.

Síðan er hér önnur tafla. Hún sýnir breytinguna fyrir hjón eða sambýlisfólk annars vegar og hins vegar fyrir einstaklinga og einstæða foreldra. Lækkun tekjuskattsins ein og sér skilar hjónum og sambýlisfólki 5,9% aukningu ráðstöfunartekna og einstaklingum 6,8% aukningu miðað við 2 millj. kr. tekjuskattsstofns. Hækkun barnabóta, skerðingarmarka og hlutfalls bætir síðan allt að því öðru eins við fyrir barnafólk.

Þessar töflur sýna að með þeim aðgerðum sem kynntar hafa verið og liggja frumvarpinu til grundvallar er verið að koma til móts við alla, ekki bara þá sem oft hafa verið nefndir í ræðustól sem hátekjumennirnir og gert er mikið úr. Ég held að ég geti nánast skilið það svo að menn vilji ekki að meðallaunamaðurinn og þeir sem hafa hærri tekjur fái yfir höfuð neinar skattalækkanir vegna þess að margir sem hafa komið upp í ræðustól tala um venjulegt fólk, ungt fólk á mínum aldri og kannski rúmlega það, þar sem bæði hjónin eru útivinnandi, hafa haft fyrir því að afla sér menntunar, tekið á sig námslán, eru kannski nýbúin að fjárfesta í fasteign og eru að greiða af henni tiltölulega háar afborganir vegna lána, þetta fólk heitir allt saman hátekjufólk. Fólk sem er tilbúið að leggja mikið á sig, hjón sem hafa umtalsverðar tekjur, heitir allt hjá stjórnarandstöðunni hátekjufólk. Það er til þessa fólks, ég skil það svo, sem þeir eru að tala og segja: Við viljum ekki skattalækkanirnar sem ríkisstjórnin er að leggja til að þið fáið. Vegna þess að þetta snýst þegar öllu er á botninn hvolft ekki einungis um þá sem eru í lágmarkslaunaþrepinu. Og eins og hæstv. fjármálaráðherra hefur oft vikið að í þessari umræðu er auðvitað alveg óþolandi að aldrei skuli vera hægt að framkvæma neinar breytingar á tekjuskattslögunum til lækkunar hjá meðaltekjufólki án þess að hér sé hrópað að verið sé að hygla hátekjufólki. En þeir sem kynna sér tillögurnar sem hér liggja fyrir sjá að til að mynda með hækkun barnabótanna er einmitt verið að koma sérstaklega til móts við ungar fjölskyldur sem hafa lágar tekjur.

Samandregið verð ég að segja að mér finnst umræðan um frumvarpið hafa verið tiltölulega ómálefnaleg. Mér finnst málflutningur stjórnarandstöðunnar hafa verið afar ósannfærandi, mér finnst þingmenn Samfylkingarinnar hafa slegið úr og í. Það er ýmist glapræði að lækka skatta og hins vegar fullt svigrúm til þess að lækka skatta.

Hingað kom til að mynda formaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, og spurði: Hvernig ætlið þið að bregðast við þegar hægir á hagvextinum, þegar við sjáum fyrir endann á hagvaxtarskeiðinu? Hvernig ætlið þið að bregðast við? Með því að lækka skattana núna er augljóst að þið ætlið að ráðast á velferðarkerfið þegar hægir á hagvextinum. Í sömu ræðu fullyrti hann að fullt svigrúm væri til að lækka skattana jafnmikið og við erum að leggja til, til að fórna jafnmiklu af tekjum ríkisins eins og við erum að gera, reyndar með aðeins öðrum áherslum í lækkunum. En tekjur ríkisins munu verða nákvæmlega jafnlágar þegar hægir á hagvextinum, eða því hagvaxtarskeiði lýkur sem ég vona að gerist ekki heldur verði enn lengra en spáð er, nákvæmlega sama vandamálið kemur upp verði fallist á þær tillögur til lækkana á sköttum sem hann mælti fyrir í þeirri ræðu. Mér finnst menn einfaldlega tala í hring.

Um þær áherslur sem kynntar hafa verið af þingmönnum Vinstri grænna þá sé ég ekki annað en að þeir séu að mæla fyrir því að allur sá afgangur sem myndast á næstu árum verði notaður í að auka samneysluna. Ég skil það ekki öðruvísi. Menn segja að það sé glapræði að nota það svigrúm sem er að myndast í ríkisfjármálunum til að lækka skatta á einstaklinga. Þá er bara eins gott að menn komi hér upp og geri grein fyrir því hvort þeir vilji sjá 30 milljarða kr. afgang á ríkisfjármálunum. Er það það sem menn stefna að? Eða ætla menn að gera það sem þeir eru að gefa undir fótinn með, að setja þetta allt saman í útgjöld ríkissjóðs? Á að verja þessu öllu í mennta- og heilbrigðismálin þrátt fyrir alla þá aukningu sem þar hefur átt sér stað og fara þannig fyrst virkilega að sprengja alla mestu verðbólguskala sem við höfum nokkurn tíma séð? Þessi málflutningur verður ekki skilinn öðruvísi.

Um leið hlýtur maður að skilja hann þannig að ef ekkert svigrúm er til skattalækkana, eins og ætla má af málflutningi hv. þingmanna úr þingflokki Vinstri grænna, að verið sé hreinlega að mótmæla barnabótaaukanum sem mælt er fyrir í frumvarpinu sem við ræddum í vikunni og verið að mótmæla þeim aðgerðum sem eiga að tryggja áframhaldandi kaupmáttaraukningu lægstu launa á næstu árum.