131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[21:17]

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er enn og aftur sama umræðan sem var einmitt tæmd sem sýnir sig í því að alltaf er verið að sveifla sömu skýrslunni. Við skulum nota heilbrigða skynsemi. Settar eru áætlanir um tekjur og útgjöld í fjárlagafrumvarpinu. Í millitíðinni, áður en ríkisreikningur er gefinn út og hann kláraður, tekur ríkisstjórnin sérstaka ákvörðun um eitthvert átak eða bregst við einhverjum aðstæðum sem upp hafa komið frá því fjárlögin voru samþykkt og eykur útgjöldin. Síðan kemur ríkisreikningurinn. Það sem málflutningurinn gengur út á er að það skipti engu máli þó í millitíðinni hafi verið ákveðið að auka við útgjöldin til að bregðast við aðstæðum, vegna þess að það kom út einhver skýrsla sem sagði annað. Þetta stenst enga skoðun. Það verður að beita heilbrigðri skynsemi þegar menn gera þessa samanburðarskoðun.