131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[21:23]

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var dálítið gaman að hlýða á hv. þm. Bjarna Benediktsson sem talaði sig upp í talsverðar hæðir á köflum. Kannski náði hann mestu hæðum þegar hann orðaði það einhvern veginn þannig að mikilvægt væri að halda þétt í taumana á ríkisútgjöldum, milli þess sem hann deildi á stjórnarandstöðuna fyrir að bera saman epli og appelsínur þrátt fyrir að ríkisendurskoðandi hafi komist að hinu gagnstæða.

Ég ætla að beina þeirri spurningu til hv. þingmanns til þess að einfalda málið, vegna þess að þegar borin eru saman fjárlagafrumvörpin 2004 og 2005 eru ríkisútgjöldin upp á 7%. Hagvöxturinn er upp á 5% og verðbólgan er upp á 3,5%. Með öðrum orðum, ríkið tekur meira til sín en nokkru sinni og útgjöldin eru hærri en nokkru sinni. Hvers vegna getur hv. þingmaður komið upp og sagt: (Forseti hringir.) Það er virkilega haldið í taumana á ríkisútgjöldunum.