131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[21:27]

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er tvennt sem ég vil segja í síðara andsvari mínu. Í fyrsta lagi að þrátt fyrir að ríkisútgjöldin hafi e.t.v. verið meiri en ég hefði óskað hefur bæði tekist að viðhalda hagvextinum og kaupmættinum allan tímann. Við höfum séð kaupmáttaraukningu á heimilunum stanslaust tíu ár aftur í tímann og við sjáum ekki fram á neitt annað en að þeirri þróun verði áfram viðhaldið.

Það sem ég var einkum að gagnrýna varðandi málflutning þingmanna Samfylkingarinnar var þetta: Menn segja að með því að lækka skatta eins og við gerum séu menn að búa til vanda síðar meir þegar hægir á hagvextinum. Samt eru menn á sama tíma að leggja fram tillögur til skattalækkana sem nema jafnháum fjárhæðum á tekjuhliðinni. Ég spyr einfaldlega: Hvers vegna kemur ekki upp nákvæmlega sami vandi þegar hægir á hagvextinum ef það gerist í framtíðinni og menn halda fram að gerist (Forseti hringir.) ef gengið verður að tillögu okkar?