131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[21:28]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Bjarni Benediktsson fór mikinn í skattaumræðu og tekjujöfnunarumræðu við fjárlagagerðina. Mér fannst hann skauta ansi létt fram hjá stöðunni sem uppi er. Ég hef áhyggjur af viðskiptahallanum. Ég hef áhyggjur af því ef viðskiptahallinn er að verða aðaltekjustofn ríkisins. Viðskiptahallinn nálgast líklega 8% af landsframleiðslu í ár og á að fara upp undir 14% af landsframleiðslu 2006. Þetta er erlend skuldasöfnun. Ef viðskiptahallinn og innflutningurinn á að verða aðaltekjustofn ríkisins bendi ég á að einungis um 40% af viðskiptahallanum eru talin stafa frá stóriðjuframkvæmdum. Hitt er neysla (Forseti hringir.) og eru þá skattalækkanir rétta leiðin í þann feril sem við stöndum frammi fyrir?