131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[23:00]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Eins og okkur öllum er ljóst fer hér fram ein aðalumræða fjárlaga í dag, 2. umr. þar sem rædd eru meginatriði gjalda- og tekjuhliðar fjárlaga sem við eigum síðan að vinna eftir allt næsta ár. Ég vil því beina spurningu til hæstv. forseta sem í sjálfu sér stýrir fundi ágætlega. Það yfirbragð er á þinghaldinu í einu aðalmáli þingsins, fjárlögunum, að ráðherrabekkirnir eru tómir.

Þingið er að afgreiða fjárlögin til framkvæmdarvaldsins. Framkvæmdarvaldið hefur lagt tillögur sínar fyrir þingið og þingmenn vilja gjarnan geta skipst á skoðunum við ráðherrana um einstök atriði í fjárlagafrumvarpinu og hvernig þeir sjá síðan framkvæmd þeirra. Ég vil því spyrja hæstv. forseta hvað henni finnst um þetta yfirbragð, hvort þetta sé í raun sæmandi í svo alvarlegu máli og hvort ekki væri ástæða til að fresta þingfundi úr því að ráðherrar eru svo uppteknir að þeir geta ekki setið hér. Hér hefur verið hæstv. heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra. Hann hefur tekið mjög virkan þátt í umræðunni. En aðrir ráðherrar hafa ekki gert það. Nú standa ráðherrabekkirnir tómir. Ég vil ítreka spurningu mínar til hæstv. forseta. Finnst forsetanum það eðlilegt og sæmandi fyrir þingið að þinghald fari fram með þessum hætti um þetta stóra mál? Væri ekki ástæða til að fresta fundi þangað til ráðherrar hafa tíma til að sitja hér og taka eðlilegan þátt í þingstörfum?