131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[23:52]

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta mál er einfalt en ekki flókið. Það er nákvæmlega þannig að í fjárlagafrumvarpið í ár eins og í fjárlagafrumvarpið í fyrra eru settir inn í launaliðina gerðir samningar. Hefur hv. þingmaður ekki tekið eftir því fyrr? Halda menn að í fjárlagafrumvarpinu 2005 sem við erum að afgreiða núna sé einhver áætlun um hverjir samningarnir verði við opinbera starfsmenn á næsta ári? Nei, að sjálfsögðu ekki. Það hefur aldrei nokkurn tíma komið fyrir að inn í fjárlagafrumvarp væri sett áætlun um hvað kynni að koma út úr kjarasamningum. Þetta er því nákvæmlega skýrt og fer ekki milli mála.

Í fjárlagafrumvarpinu núna er gert ráð fyrir því að samneyslan vaxi — ef við bara tökum fjárlagafrumvarpið — um 1,7% vegna þess að tölurnar sem við höfum fyrir framan okkur sýna það. Gerðir kjarasamningar sýna það.

Þess vegna vekja menn athygli á því að það er markmið ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum — og það er rauði þráðurinn — að samneyslan vaxi ekki að raungildi á næsta ári nema um 2%. Og það verður þrautin þyngri, herra forseti. Ég er að vekja athygli á þessu af því að þessar tölur skipta meginmáli þegar við reynum að átta okkur á því hvert viðgangsefnið er í ríkisfjármálunum. Þetta eru stóru tölurnar. Þetta er það sem ræður úrslitum um það hvernig til tekst. Því er nauðsynlegt að gera athugasemdir þegar ágætir hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar skauta yfir þetta eins og þeir gerðu báðir, hv. þm. Jón Gunnarsson og hv. þm. Einar Már Sigurðarson. Þeir skauta yfir meginmálið og telja að þarna hafi ekki verið gert rétt. Það var nákvæmlega gert rétt og það merkilega við þetta, þó að margt sé athugavert við framgang fjárlaga á þessu ári, (Forseti hringir.) þ.e. of miklar hækkanir, þá tókst þó að fullnusta þessi meginmarkmið og því ber að halda til haga.