131. löggjafarþing — 39. fundur,  26. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[01:10]

Valdimar L. Friðriksson (Sf):

Hæstv. forseti. Við erum hér í umræðu um fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2005. Það er margt við það að athuga og margt sem hefur komið fram í dag og í kvöld en ég ætla að drepa hér á nokkur atriði auk breytingartillagna Samfylkingarinnar.

Meiri hlutinn hefur ákveðið að fella niður fjárveitingu til Mannréttindaskrifstofu Íslands. Hvers vegna? Veit ekki sá er hér spyr. Mannréttindaskrifstofan var með 8 millj. á þessu ári og Samfylkingin gerir þá breytingartillögu að fjárveitingin verði 9 millj. árið 2005 en meiri hlutinn ætlar sér hins vegar að fella þetta algjörlega niður. Hér er vegið að mannréttindum, herra forseti. Hvers vegna er þessi stefnubreyting meiri hlutans? Mannréttindaskrifstofan þarf að vera á fastri fjárveitingu til að geta markað sér starfsumsvif og starfað sjálfstætt.

Eitt helsta verkefni skrifstofunnar er að gæta réttinda borgaranna gegn stjórnvöldum. Hvernig hafa menn eiginlega hugsað sér þetta í framtíðinni? Ef Mannréttindaskrifstofan þarf að vinna að vörn eða gagnrýni á umhverfisráðuneytið, þarf þá að byrja á því að sækja um styrk til ráðuneytisins til að geta unnið það verkefni, til að geta gagnrýnt ráðuneytið? Hvað er það sem Mannréttindaskrifstofan hefur gert sem valdhöfum líkar ekki?

Ég skora á þingmenn meiri hlutans — því miður eru þeir ekki hér til að hlusta á mig en ég mun þá bara dreifa þessu til þeirra á morgun — að endurskoða þessa ákvörðun sína, þ.e. ef hinn almenni þingmaður meiri hlutans, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, hefur eitthvað um málið að segja eða réttara sagt fær að hafa skoðun á þessu máli. Það gengur ekki að fella niður fjárveitingu til Mannréttindaskrifstofu Íslands svona fyrirvaralaust. Slík vinnubrögð eru með öllu ólíðandi.

Herra forseti. Við í Samfylkingunni leggjum fram breytingartillögu við liðinn Sendiráð Íslands. Meiri hlutinn ætlar greinilega að fara að reisa sér eða einhverjum af kumpánum sínum höll í Berlín. Í fjárlögum er gert ráð fyrir 111,6 millj. kr. í þann lið til að fullkomna byggingu sendiráðs þannig að heildarkostnaður við það fari yfir 300 millj. kr. Er það ekki helst til mikið fyrir svona litla þjóð eða svo að ég noti orðalag hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar frá því fyrr í dag: Er hér ekki um að ræða „ofmetnað hinnar litlu þjóðar“?

Mér finnst ríkisstjórnin vera farin að hugsa helst til mikið út á við í stað þess að vinna að innri málefnum þjóðarinnar. Miðað við fjárlagafrumvarpið munu sendiráðin kosta þjóðina tæpa 2 milljarða árið 2005 og vekur það mann virkilega til umhugsunar.

Samfylkingin leggur til hækkun um 30 millj. til málefna fatlaðra í Reykjavík. Það er enn þörf á að fækka á biðlistunum. Fljótt á litið virðist vera um 30 millj. kr. hækkun ráðgerð hjá meiri hlutanum í fjárlagafrumvarpinu en hér er um raunhækkun að ræða upp á einungis 10 millj. því að eins og áður hefur komið fram hér í dag er þeim ætlað að spara um 20 millj. í rekstri 2005.

Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir hækkun til Samkeppnisstofnunar upp á 20,4 millj. Í breytingartillögum Samfylkingarinnar er gert ráð fyrir viðbótarhækkunum upp á 100 millj. Öllum ætti að vera ljós sú mikla nauðsyn að efla stofnunina til muna og gera henni kleift að sinna málum sínum á viðunandi tíma. Þessi tillaga sýnir framsýni og hlýtur að vera í takt við vilja þjóðarinnar á þessum verstu tímum samráðs. Samráð olíufélaganna er öllum kunnugt. Vinnslan á því máli tók allt of langan tíma. Maður hlýtur að leiða hugann að því hvort meiri hlutinn sé sáttur við að stofnunin sé í fjársvelti, hvort þingmenn eða ráðherrar vilji að mál fyrnist hreinlega í meðförum stofnunarinnar. Spyr hér sá er ekki veit.

Virðulegi forseti. Það þarf að skoða fleiri fyrirtæki og það án tafar. Tryggingafélögin hafa verið nefnd hér í þessu sambandi. Er samráð í gangi hjá tryggingafélögum á Íslandi? Miðað við mína reynslu, já. Ég ætla að leyfa mér að taka örlítið dæmi þar sem ég bað þrjú tryggingafélög um að gera tilboð í allar tryggingar fyrir mig og fjölskyldu mína, hús, innbú, bíla. Hver var niðurstaðan hjá tryggingafélögunum Íslandstryggingu, Tryggingamiðstöðinni og Verði? Heildarkostnaður upp á 157.152 kr., 157.369 kr. og 157. 686 kr. Það var 0,1% munur á milli tilboða frá þremur tryggingafélögum.

Herra forseti. Það er bráðnauðsynlegt að efla Samkeppnisstofnun til að vernda okkur íbúana og til að uppræta samráð. Við í Samfylkingunni höfum lagt til að lækka virðisaukaskatt á matvælum. Það er nokkuð sem ætti að koma öllum til góðs og leiða til jafnaðar. Þessi tillaga um að lækka virðisaukaskatt á matvælum úr 14% í 7% hefur ekki fengið hljómgrunn hjá meiri hlutanum. Hvers vegna er nánast ómögulegt að skilja nema þá helst af því þeim dettur það ekki sjálfum í hug og það er búið að innprenta í þennan þaulsætna meiri hluta að allt sem kemur frá stjórnarandstöðunni sé slæmt. Einstaka þingmenn hafa þó haft kjark til að viðurkenna að hér sé góð tillaga á ferðinni, en þau hlýða.

Okkur eru sífellt að berast nýjar upplýsingar um lægra verð á matvælum í nágrannaríkjunum. Síðast í dag kemur það skýrt fram að verð á matvælum á Íslandi er 56% dýrara en í Evrópusambandsríkjunum. Þar vegur virðisaukaskatturinn þungt. Ég skora því á meiri hlutann að endurskoða afstöðu sína til matarskattsins og taka upp tillögu okkar, þó ekki væri nema til að gera að sinni.

Virðulegi forseti. Snúum okkur að ráðuneyti íþróttamála. Fyrir liggur tillaga um jöfnun ferðakostnaðar íþróttafélaga innan lands sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur lagt fram sem breytingu við fjárlagafrumvarpið. En höfum við ekki heyrt þetta áður eða eitthvað í svipuðum dúr? Jú, það var lögð fram tillaga til þingsályktunar um ferðasjóð íþróttafélaga 13. október 2003. Þessi tillaga var tekin til fyrri umr. mánuði síðar. Hana flutti framsóknarmaðurinn hv. Hjálmar Árnason og hún var studd af samflokksmönnum hans hv. þingmönnum Birki J. Jónssyni og Dagnýju Jónsdóttur meðal annarra. Þessir þingmenn hafa síðan þá barið sér á brjóst opinberlega og reynt að upphefja sig á kostnað tillögunnar. Við skulum rifja þetta aðeins upp.

Tillögugreinin hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að veita árlega af fjárlögum fé í ferðasjóð íþróttafélaga til að standa straum af kostnaði við keppnisferðir þeirra á viðurkennd mót. Úthlutun fari eftir reglum sem menntamálaráðherra setur.“

Er hv. þm. Hjálmar Árnason mælti fyrir tillögunni fyrir um 12 mánuðum síðan sagði hann m.a., með leyfi forseta:

„Fyrir þjóðina í heild er öflug íþróttastarfsemi einnig mikilvæg, vegna hollustunnar og forvarnagildisins en ekki síður vegna keppnisandans. Fátt sameinar þjóðina eins mikið og þegar strákarnir okkar eða stelpurnar okkar standa sig vel á alþjóðavettvangi í landsleikjum eða þegar spennandi leikir í úrslitakeppni eiga sér stað.

Við vildum ekki sjá af mörgum vöskum íþróttaliðum okkar af landsbyggðinni á Íslandsmótum eða í bikarkeppni. En því miður er staðan í fjármálum íþróttafélaganna þannig að sú umræða hefur komið upp í fúlustu alvöru hjá nokkrum öflugum íþróttaliðum. Íþróttalið frá Akureyri og Vestmannaeyjum hafa velt því fyrir sér hvort þau hafi ráð á að taka þátt í Íslandsmóti eða bikarkeppni með lið sín. Ástæðan er ferðakostnaðurinn, ferðakostnaðurinn við að taka þátt í Íslandsmóti eða bikarkeppni. Mér er kunnugt um að t.d. í Vestmannaeyjum mun kostnaðurinn, bara ferðakostnaðurinn, vera um 20 millj. kr. og þar á ofan bætist annar rekstrarkostnaður af íþróttadeildunum. Þetta er mjög alvarlegt mál.“

Já, virðulegi forseti. Svo mörg voru þau orð. Þetta er mjög alvarlegt mál. En hvers vegna var málið þá svæft í menntamálanefnd? Málið komst einu sinni á dagskrá og það var einungis fyrir tilstilli undirritaðs. Hvers vegna tóku hv. þingmenn Hjálmar Árnason og Dagný Jónsdóttir þátt í því sem fulltrúar Framsóknarflokksins í menntamálanefnd að svæfa sína eigin tillögu og blekkja þannig iðkendur og forsvarsmenn íþróttafélaga fyrst og fremst af landsbyggðinni? Hér er ég að tala um félög eins og KS á Siglufirði og KA og Þór á Akureyri svo nokkur séu nefnd. Til hvers að koma með slíka tillögu, berja sér á brjóst í fjölmiðlum sem eins konar bjargvættir íþróttafélaga á landsbyggðinni og svæfa svo allt saman eða réttara sagt svíkja allt saman?

Virðulegi forseti. Úr því ég er farinn að snúa mér hér að íþróttamálum þá vil ég fá að beina athyglinni að fjárveitingum til sérsambanda ÍSÍ samkvæmt fjárlagafrumvarpinu og jafnframt breytingartillögum meiri hlutans.

Eins og áður hefur komið fram er Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands landssamtök með yfir 150 þúsund félagsmenn. ÍSÍ greinist síðan niður í 25 sérsambönd. Sérsamböndin eru í dag æðstu aðilar í sínum íþróttagreinum og eru mjög mikilvægur hlekkur í íþróttastarfinu. Þau stýra viðkomandi íþróttagreinum, mótahaldi, uppbyggingu, fræðslu og útbreiðslustarfsemi svo eitthvað sé nefnt. Sérsamböndin hafa jafnframt umsjón með þátttöku þjóðarinnar í keppni á erlendri grund. Þau eru þannig eins konar sendiherrar þjóðarinnar.

Á fjármálaráðstefnu ÍSÍ fyrir nokkrum árum hélt ég því fram að frumkvæði um fastar fjárveitingar ætti að koma frá ríkisvaldinu sjálfu. Mér er minnisstætt að hæstv. menntamálaráðherra sem þá var óbreyttur þingmaður taldi hins vegar að frumkvæðið ætti fyrst og fremst að koma frá íþróttahreyfingunni sjálfri. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hefur síðan þá sýnt frumkvæði í beiðni um fjárveitingar til sérsambanda ÍSÍ, en án nokkurs árangurs. Á síðustu árum hefur verið sýnt frumkvæði bæði bréflega og munnlega.

Í svari menntamálaráðherra við fyrirspurn minni um þessi mál 31. mars síðastliðinn á hinu háa Alþingi kom skýrt fram að ráðherra hygðist boða formenn sérsambanda ÍSÍ á sinn fund og sagðist vænta góðs árangurs af því samráði. Þetta samráð, herra forseti, fór fram 19. nóvember síðastliðinn. Mér skilst að út úr þeim fundi hafi nákvæmlega ekkert komið. Þær afsakanir voru notaðar að fjárlagavinnan væri komin svo langt á veg. En ef það hefur verið vandamálið hvers vegna í ósköpunum var ráðherrann þá að bíða í átta mánuði með að halda þennan mikilvæga fund?

Síðan fundinum lauk hafa verið gerðar breytingar á fjárveitingu til íþróttamála hjá fjárlaganefndinni, þ.e. í fjárlagafrumvarpinu. Þar hafa m.a. 12 millj. kr. verið færðar til. Til sérsambandanna? Nei, þær hafa verið færðar frá sérsamböndunum. Fjárveiting sem sérsamböndin höfðu til lyfjaeftirlits voru í frumdrögum frumvarpsins 7 millj. til að hægt sé að framkvæma lyfjaeftirlit á Íslandi og greiða til WADA-stofnunar. Þessar 7 millj. hafa verið skornar niður af meiri hluta fjárlaganefndarinnar, þannig að það er ekki hægt að vænta neins lyfjaeftirlits í framtíðinni. Hvar var ráðherra þegar þetta gerðist? Þegar grannt er skoðað hvert þeir fjármunir hafa farið á síðustu vikum sem ég er að tala hér um ætti öllum að vera ljóst að fulltrúar Framsóknarflokksins hafa gjörsamlega knésett ráðherrann, ráðherra menntamála.

Það er þannig í dag þegar maður ræðir við forsvarsmenn ÍSÍ að þeim finnst þeir algjörlega hafa verið sviknir fyrir utan það að þeim hefur enginn skilningur verið sýndur. Þessir fjármunir hafa farið greinilega á annan stað, stað sem framsóknarmönnum hefur ávallt verið meira umhugað um.

Virðulegi forseti. Ef íþróttahreyfingin á að eiga sér uppreisnarvon á hinu háa Alþingi þá þarf að endurskoða staðsetningu íþróttamála í kerfinu. Ekkert bendir til þess að íþróttamálin og þeir sjálfboðaliðar sem standa fyrir íþróttaiðkun á Íslandi eigi heima undir ráðuneyti mennta og lista. Þar er enginn skilningur, alla vega ekki meðan núverandi ráðherra situr þar við völd.

Herra forseti. Enn er vika í 3. umr. fjárlaga og því enn tími fyrir meiri hlutann til að hysja upp um sig buxurnar í þeim málum sem ég hef verið að benda á í ræðu minni.