131. löggjafarþing — 39. fundur,  26. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[01:55]

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Herra forseti. Það kom sannarlega ekki á óvart í þessu andsvari hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar að hann talaði um allt annað en stefnu eigin flokks í skattalækkunum. Hv. þingmaður vék að samkomulaginu við öryrkja, sem er búið að ræða hér aftur og aftur í dag og hæstv. heilbrigðisráðherra er búinn að gera grein fyrir, ekki einu sinni heldur tvisvar.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson hélt því enn og aftur fram að Framsóknarflokkurinn stæði gegn því að virðisaukaskattur á matvæli væri lækkaður um 7% þrátt fyrir að ég áréttaði í ræðu minni áðan að þess sæjust merki í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og að hæstv. forsætisráðherra hefði áréttað það í ræðu á dögunum, að það væri eitt af því sem ríkisstjórnin væri að skoða.

Hv. formaður Samfylkingarinnar talar enn og aftur um það sem hann heldur fram að Framsóknarflokkurinn ekki vilji gera. Hann heldur því fram að vert sé að lækka virðisaukaskattinn um 5 milljarða kr. Ég hlýt að spyrja hv. þm. Össur Skarphéðinsson hvað hann hefði viljað gera að öðru leyti ef hann hefði komist í ríkisstjórn. Talandi um að menn séu svekktir: Hefði hann staðið við loforð Samfylkingarinnar upp á 15–20 milljarða kr, eða 30 milljarða, eins og menn reikna þau í dag?

Upp úr hv. þingmanni stendur bunan um samkomulag við öryrkja, sem einnig var rætt fyrir ári, og rangar ávirðingar á Framsóknarflokkinn um að hann standi gegn lækkun virðisaukaskatts á matvæli. Þetta finnst mér ekki vera mikil frægðarför hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar.