131. löggjafarþing — 40. fundur,  26. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[10:48]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Hér eru lagðar til breytingar á fjárframlagi til endurbóta þeirra húsa sem eru í vörslu Þjóðminjasafns Íslands. Ég tel að það sé fyrir einhvern misskilning, reginmisskilning að hv. fjárlaganefnd skuli ekki hafa gert tillögu af þessu tagi því að hér er um að ræða varðveislu torfbæjanna okkar, þeirra menningarminja, þeirra húsa sem við erum búin að taka frá til langrar framtíðar, menningarminja sem meira að segja hafa verið orðaðar við heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna. Þjóðminjasafnið hefur ekki fengið áheyrn fjárlaganefndar varðandi þetta brýna verkefni undanfarin ár og nú er svo komið að hús eins og Reynistaður, Glaumbær, Grenjaðarstaður, Bænahúsið á Núpsstað, Víðimýrarkirkja, Keldur á Rangárvöllum og fleiri hús eru hætt komin og standa í raun og veru mjög illa þannig að það ríður á að Alþingi Íslendinga sýni þessari tillögu skilning. Í ljósi þess hversu mikil hækkun hefur komið frá fjárlaganefnd til endurbóta gamalla húsa þá eru hér hin eiginlegu menningarverðmæti, torfbæirnir okkar. Þeim verðum við að bjarga og standa myndarlega við uppbyggingu þeirra. Ég segi já.