131. löggjafarþing — 40. fundur,  26. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[10:58]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hér er enn á ferðinni hin ótrúlega útþensla utanríkisþjónustunnar eða utanríkisráðuneytisins og að þessu sinni það sem lýtur að stjórnsýslu og yfirbyggingu þess ráðuneytis. Hér á hið háa ráðuneyti að fá tvisvar sinnum 8 millj. kr. í viðbót annars vegar til að ráða starfsmann á skrifstofu NATO í Brussel og hins vegar til að ráða sérfræðing, einn enn í viðbót, inn á varnarmálaskrifstofuna í Reykjavík. Við teljum, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, að það sé margt annað þarfara og nóg annað þarfara að gera við fjármuni af þessu tagi, 16 millj. kr., en hlaða enn undir yfirbygginguna og stjórnsýsluna í utanríkisráðuneytinu og það í báðum tilvikum tengt áráttunni til að hervæða landið og vígbúnaðar- og hernaðaraðdáun og brölti utanríkisráðuneytisins og utanríkisráðherra bæði fyrrverandi og núverandi. Við leggjumst því gegn þessari hækkun og mundum finna þessum fjármunum annan og þarfari stað ef fallist yrði á að ekki þurfi að hækka þessa fjárveitingu utanríkisráðuneytisins.