131. löggjafarþing — 40. fundur,  26. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[11:03]

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Þetta er hluti tillögu sem einnig er að finna í næsta lið, 2. tölul. á sama þingskjali. Þetta er einföld tillaga sem miðar að því að tryggja að þeir fjármunir sem Alþingi Íslendinga veitir til hjálparstarfs og friðargæslu fari til þeirra hluta en ekki til hernaðar. Tillagan gengur út á að fellt verði niður 140 millj. kr. framlag til svokallaðrar íslenskrar friðargæslu en því fé verði skipt á Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNIFEM og liðinn Mannúðarmál og neyðaraðstoð. Það er álit okkar flutningsmanna að öll sú eiginlega friðargæsla sem Íslendingar halda uppi muni rúmast innan þessara liða og því segi ég já.