131. löggjafarþing — 40. fundur,  26. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[11:13]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Verið er að greiða atkvæði um tillögu um að auka fjárveitingar til Landhelgisgæslu Íslands. Í úttekt Ríkisendurskoðunar á Landhelgisgæslunni árið 2001 kom fram að það vantaði verulega á í rekstri Landhelgisgæslunnar og síðan hefur enn verið dregið úr rekstri og skipum lagt. Í fréttum hefur komið fram að Landhelgisgæslan gæti ekki staðið nógu vel að viðhaldi þannig að það liggur klárlega fyrir að á vanda Landhelgisgæslunnar verður að taka og það er algerlega óviðunandi að ekkert varðskip sé á sjó við Íslandsstrendur eins og komið hefur fyrir undanfarin ár.