131. löggjafarþing — 40. fundur,  26. nóv. 2004.

Meðferð opinberra mála og aðför.

309. mál
[12:07]

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Reynsla mín af þingstörfum, þó hún sé ekki löng, hefur kennt mér að maður þarf að vera svolítið á tánum þegar fram koma frumvörp frá hæstv. dómsmálaráðherra. Þess vegna nálgast ég frumvarpið sem hæstv. dómsmálaráðherra mælti fyrir með ákveðinni varúð. Ég held að hér séu ákveðin hættumerki að finna, en þetta er að sjálfsögðu einungis 1. umr. og við eigum eftir að fá ítarlegar umsagnir bæði lögfróðra manna og hagsmunaaðila.

Hér eru á ferðinni atriði sem snerta réttarríkið. Ég vil a.m.k. byrja á að taka fram að við fyrstu skoðun virðist sú breyting sem lýtur að því að einfalda sektarinnheimtuna vera jákvæð. Það er margt til í því að það kerfi getur verið þungt í vöfum og alls ekki almenningi í hag. Ég held því að sú breyting geti í eðli sínu verið jákvæð. Við þurfum að hafa skilvirkt og skynsamlegt kerfi og reyna að vinna gegn skriffinnskunni. Að sama skapi er í frumvarpinu lagt til að aðrar breytingar verði gerðar sem eru fyrst og fremst réttlættar með því að hér sé á ferðinni vinnusparnaður, aukið hagræði og tímasparnaður. Verið er að spara kostnað hins opinbera og jafnvel verið að spara og minnka fyrirhöfn opinberra aðila og stofnana. Það getur verið hættulegt þegar við tölum um þetta svið. Verið er að tala um ákveðin grundvallaratriði réttarríkisins hvernig við framfylgjum þessum málum. Ég hef ákveðnar áhyggjur af stöðu sektarþola, dómþola eða gerðarþola eftir því sem við á.

Lagt er til að lögregla þurfi ekki að birta sektardóm fyrir dómþola hafi hann ekki verið viðstaddur uppkvaðninguna þegar viðurlög eru ekki önnur en sekt eða upptaka eigna. Þetta getur hljómað sakleysislega, en hins vegar þurfum við að vera aðeins á varðbergi. Ég held við þurfum að ræða þetta vel í hv. allsherjarnefnd því þetta er þvert á það sem við höfum verið að gera hingað til og við erum að sjálfsögðu að ræða um opinber mál. Þetta er ekki einkamál, þannig að kröfurnar ættu að mínu mati að vera enn þá ríkari hvað þetta varðar. Breytingin er réttlætt af hálfu frumvarpshöfunda þannig að með henni verði ákveðið hagræði og verið sé að minnka vinnu, tíma og jafnvel kostnað.

Síðan er önnur breyting sem lýtur að því að heimila svokölluð útivistarfjárnám. Það felur í sér að lögregla þarf þá ekki að handtaka menn og færa til sýslumanns í tengslum við árangurslaust fjárnám. Það getur einnig verið varhugavert að fara þessa leið, sérstaklega með það í huga að greinarhöfundar hafa það markmið að spara peninga og tíma. Heimildin lýtur að því að ljúka megi fjárnámi að kröfu gerðarbeiðanda á skrifstofu sýslumanns hafi fjárnámið verið án árangurs og án nærveru gerðarþola að þremur skilyrðum uppfylltum sem má sjá í greinargerðinni.

Þetta hljómar sakleysislega, en er hluti af grundvallaratriðum sem ég vil á þessu stigi a.m.k. vekja athygli á að við þurfum að skoða mjög vel. Ég vil að við leggjum vinnu í þetta mál, vegna þess að við höfum séð það í allsherjarnefnd að jafnvel hin sakleysislegustu mál geta orðið snöggtum flóknari og jaðra jafnvel við að vekja vafa um hvort á ferðinni sé stjórnarskrárbrot, en í vikunni var til umræðu frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra sem laut að því að heimila rafræna birtingu laga og reglugerða og alþjóðasamninga. Í fyrstu virtist það vera saklaust mál og skynsamlegt, en nú höfum við fengið ákveðnar efasemdir í nefndinni sem við erum að sjálfsögðu að skoða betur. Því er alveg rétt við 1. umr. að hvetja hv. allsherjarnefnd að vanda sig þegar kemur að þessum málaflokki.