131. löggjafarþing — 40. fundur,  26. nóv. 2004.

Fullnusta refsingar.

336. mál
[12:20]

Bryndís Hlöðversdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Eins og fram hefur komið var þetta frumvarp sem við höfum til umræðu, um fullnustu refsinga, flutt í fyrra. Það verður að segjast eins og er að þá fékk það hreint út sagt skelfilegar viðtökur í umsögnum og það kom í ljós við meðferð málsins í allsherjarnefnd að það var það margt sem vantaði upp á í frumvarpinu og það margt sem þurfti að laga að það var mjög erfitt að vinna á grundvelli þess eitthvert vitrænt frumvarp. Sem betur fer var tekin sú ákvörðun af hálfu dómsmálaráðuneytisins að kalla frumvarpið til baka úr nefndinni og nefndin féllst á það í ljósi þeirra mörgu athugasemda sem höfðu komið fram. Þær athugasemdir lutu að fjölmörgum þáttum í frumvarpinu og voru mjög alvarlegar.

Talið var skorta á framtíðarsýn um markmið refsinga. Gerðar voru athugasemdir við þær kröfur sem voru gerðar í frumvarpinu til menntunar forstöðumanna, valdbeitingarheimildir fangavarða voru gagnrýndar og taldar vera allt of rúmar og illa skilgreindar, án nokkurra skilyrða um tilefni eða rökstuðning. Ákvæði um þagnarskyldu starfsfólks var gagnrýnt mjög og talið vera allt of rúmt, óhóflega langt gengið í því að heimila líkamsleit á gestum fanga og svo mætti lengi telja.

Að mínu mati var ekki nægilega vel staðið að undirbúningi frumvarpsins. Ég fagna því þeirri vinnu sem hefur átt sér stað síðan þá. Þegar frumvarpið kom upphaflega fyrir allsherjarnefnd virtist ekki hafa verið talað við nokkurn mann nema fangelsismálayfirvöld og það er auðvitað ekki viðunandi að frumvarp um svo mikilvægan og viðkvæman málaflokk sé lagt fram á svo veikum grundvelli.

Eins og kemur fram í greinargerð með þessu nýja frumvarpi hefur í millitíðinni ýmislegt gerst í þessum málaflokki. Nýr fangelsismálastjóri hefur verið skipaður og eftir því sem stendur í greinargerð með frumvarpinu hefur hann komið að þessari vinnu og á sama tíma hefur verið unnin stefnumótunarvinna hjá Fangelsismálastofnun og samin skýrsla á þeim grundvelli. Nafn skýrslunnar er „Um markmið í fangelsismálum og framtíðaruppbyggingu fangelsanna“. Og vissulega er nýr tónn sleginn í þessu frumvarpi. Þó að við eigum eftir að skoða nánar einstök ákvæði í allsherjarnefnd er alveg greinilega nýr tónn sleginn. Ég vil í því sambandi ekki síst vitna til þess sem stendur í greinargerð með frumvarpinu þar sem vísað er í skýrsluna um markmið í fangelsismálum og framtíðaruppbyggingu fangelsanna. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Að lokinni refsivist snýr fangi aftur út í samfélagið og því er þjóðfélagslega hagkvæmt að draga úr líkum á endurkomu hans í fangelsi vegna nýrra afbrota. Fangelsismálastofnun telur mikilvægt að sett verði þau markmið að föngum verði tryggð örugg og vel skipulögð afplánun, að mannleg og virðingarverð samskipti verði höfð í fyrirrúmi og að fyrir hendi verði aðstæður og umhverfi sem hvetur fanga til að takast á við vandamál sín. Til að ná fram þessum markmiðum þarf að setja fram einstaklingsbundna áætlun um framvindu afplánunarferils sérhvers fanga í upphafi refsivistar. Áætlun þessi fæli í sér þætti eins og áhættumat, meðferðarþörf, getu til náms og/eða vinnu, sálfræðilegan, félagslegan og annan stuðning. Eftir þessari áætlun yrði síðan unnið með viðkomandi fanga á afplánunartímanum af menntuðu og þjálfuðu starfsfólki og áætlunin endurskoðuð reglulega. Þegar kemur að lokum afplánunar viðkomandi yrði stuðlað að því, í samvinnu við fangann, að hann ætti fastan samastað, hefði góð tengsl við fjölskyldu og/eða vini, kynni að leita sér aðstoðar og næði að fóta sig í samfélaginu.“

Virðulegur forseti. Þetta er vissulega nýr tónn og ég tel mjög mikilvægt að staðið verði við þau markmið sem þarna eru sett. Því miður hefur skort á það að mínu mati mjög stórlega í þessum málaflokki hingað til að til sé framtíðarsýn sem hafi m.a. þetta að markmiði. Auðvitað erum við ekki bara að tala um að einstaklingar fái viðeigandi refsingu fyrir þau afbrot sem þeir fremja. Það er samfélagslega virkilega mikilvægt líka að fangi fái þannig meðferð í fangelsinu, viðunandi meðferð og þannig aðbúnað að það sé líklegt að hann sé a.m.k. ekki miklu verri maður þegar hann kemur aftur út í samfélagið. Þar virðist því miður hafa verið brotalöm og sérstaklega hefur skort mjög á að horft sé á þann þátt að aðlaga fangann að því að fara aftur út í samfélagið. Flestir koma þeir sem betur fer aftur þangað. Ég fagna því að það kveður við nýjan tón í þessum málum.

Hvað einstakar greinar varðar virðast mér breytingarnar flestar vera til góða. Mikið tillit var tekið til þeirra athugasemda sem komu fram við meðferð málsins hér á Alþingi og í takt við þær umsagnir sem komu fyrir allsherjarnefnd á sínum tíma. Ég hef ekki tóm til að fara ofan í hverja einustu grein við 1. umr. þar sem við höfum aðeins tamarkaðan tíma og verð að gera það frekar þegar kemur að 2. umr. og eftir meðferð málsins í allsherjarnefnd. Ég vil samt koma inn á nokkrar greinar sem mér finnst mikilvægt að draga fram í umræðunni.

Í fyrsta lagi er það 7. gr. sem fjallar um heimild til valdbeitingar. Hún var eitt af því sem var mjög harðlega gagnrýnt í fyrra frumvarpi. Það var nánast óútfyllt ávísun til handa starfsmönnum fangelsa að beita valdi við framkvæmd skyldustarfa ef það teldist nauðsynlegt. Þá komu fram mjög alvarlegar athugasemdir um að skilyrði slíkrar valdbeitingar og ramma hennar þyrfti að setja í lögum. Það hefur verið gert og ég fagna því sem hæstv. dómsmálaráðherra sagði áðan og ég tel mjög mikilvægt að komi fram, að þarna erum við að tala um tæmandi upptalningu á því hvenær heimilt er að beita valdi. Það er líka skilgreining á því í hverju valdbeiting getur falist. Mér finnst mikilvægt að nákvæmlega sé kveðið á um það í lögum og ég tel reyndar þessa breytingu nauðsynlega til að við uppfyllum ákvæði þeirra alþjóðlegu sáttmála sem við höfum undirgengist. Við höfum vissar skyldur á grundvelli þeirra og fyrri greinin eins og hún var hefði hreinlega ekki staðið þá. Þarna er búið að laga heilmikið.

Eitt enn varðandi heimild til valdbeitingar sem ég tel líka mjög mikilvægt að sé kveðið á um í lögum, það skal kalla til lækni eftir valdbeitingu ef grunur er um að hún hafi valdið skaða, ef um sjúkdóm er að ræða eða ef fangi sjálfur óskar læknisaðstoðar. Í slíkum tilvikum er búið að leggja þá skyldu á herðar starfsmanna fangelsanna að gera það ef fangi óskar þess sjálfur eða ef ástæða er til að ætla að einhverjum skaða hafi verið valdið. Þetta er líka að mín mati mjög mikilvæg breyting.

Þagnarskyldan kveður almennt á um þagnarskyldu starfsmanna fangelsa um atvik sem þeim verða kunn í starfi sínu eða vegna starfs síns og leynt eiga að fara vegna lögmætra almanna- eða einkahagsmuna. Það var líka kveðið á um það í fyrri útgáfunni að þagnarskylda skyldi ríkja um starfshætti fangelsa og það var það sem var hvað mest gagnrýnt. Það hefur verið tekið út. Hvort fella megi þá gagnrýni sem þar kom fram undir aðra liði í þessari grein er ég ekki viss um við fyrstu sýn en ég tel mjög mikilvægt að þetta ákvæði sé ekki til þess að upplýsa megi um það sem nauðsynlegt er að betur megi fara í fangelsunum.

Það var líka gagnrýnt í þessu ljósi og bent á það af hálfu fjölmargra umsagnaraðila að ekkert væri kveðið á um það að sérstakt ytra eftirlit væri með fangelsunum. Ef eitthvað þrífst þar, einhverjir starfshættir sem eru ekki í samræmi við góða starfshætti og ekkert utanaðkomandi eftirlit er með því hvernig framkvæmdin er er auðvitað mjög hættulegt að loka algjörlega á það að starfsmenn geti upplýst um slíka starfshætti og að þeim sé beinlínis bannað að gera það. Þess vegna held ég að þá grein þurfum við að skoða í allsherjarnefnd. Jafnvel þó að þetta með starfshættina hafi verið tekið út og það sé til bóta held ég að við þurfum að skoða aðeins betur hvort of langt sé gengið í þessu efni.

Kveðið er á um ákvörðun um vistunarstað í 14. gr. og þær breytingar sem þar eru gerðar sýnast mér allar vera til bóta. Þar er nýmæli eða kveðið á um að við flutning á milli fangelsa eða frá stofnun til fangelsis skuli eftir því sem aðstæður leyfa hafa hliðsjón af búsetu fanga og fjölskyldu hans. Fanga skal tilkynnt fyrir fram um slíkan flutning með minnst sólarhrings fyrirvara og gerð grein fyrir ástæðum flutnings, nema hann teljist nauðsynlegur af öryggisástæðum, vegna heilbrigðis fanga, til að fyrirbyggja ofbeldi, hafi fangi gerst sekur um gróft agabrot, eða fyrir liggi rökstuddur grunur um að fangi hafi fíkniefni eða ólögmæt lyf undir höndum. Þetta er mjög mikilvægt að setja í lögin. Þarna er m.a. tekið mið af því, ef ég skil þetta rétt, að undirbúa fangann undir endurkomu hans í samfélagið og að fjölskyldu hans sé gert sem auðveldast að hafa samband við hann með því að taka tillit til staðsetningar. Auðvitað skiptir þetta allt saman máli og mikilvægt er líka að kveðið sé á um það í lagatexta hverjar skulu vera ástæður flutningsins. Þarna tel ég því að enn hafi verið bætt úr frá því sem var í fyrra frumvarpi.

Í 2. mgr. 16. gr. er kveðið á um læknir skuli skoða fanga við upphaf afplánunar og einhvers staðar annars staðar í lagatextanum er kveðið á um að læknir skuli leggja mat á heilsufar fanga. Ég tel að mikilvægt sé að skoða betur hvort ekki sé ástæða til að kveða sérstaklega á um að í því skuli felast bæði mat á andlegu og líkamlegu heilsufari því fram komu athugasemdir í fyrra um að geðheilbrigðisþjónustu við fanga væri mjög ábótavant. Fangar sem eiga við geðræn vandamál að stríða en eru eigi að síður sakhæfir eru orðnir nokkurs konar utangarðshópur í samfélaginu. Hvorki er gert ráð fyrir viðunandi þjónustu við þá í fangelsunum né á geðheilbrigðisstofnunum. Auðvitað getur slíkt ástand verið mjög hættulegt, ekki bara fyrir þá einstaklinga sem í hlut eiga heldur ekki síður fyrir aðra sem umgangast þá. Það er mjög mikilvægt að úr þessu verði bætt. Mér finnst staða þessara geðveiku en sakhæfu afbrotamanna okkur til skammar. Við þurfum hreinlega að taka okkur virkilega taki þar því ella er hætt við að við horfum upp á enn fleiri sjálfsmorð í fangelsunum eða aðra harmleiki. Ég held því að það sé nokkuð sem við þurfum að skoða betur í allsherjarnefnd, e.t.v. mætti setja inn sérstakt ákvæði um þennan þátt og ítreka hann í ljósi þess að hann hefur því miður ekki verið ræktur sem skyldi.

Eitt atriði vil ég sérstaklega nefna sem kveðið er á um í 17. gr. Það er meðferðar- og vistunaráætlun. Þarna er um nýmæli að ræða. Þetta var eitt af því sem hefur verið mjög svo gagnrýnt af hálfu fjölmargra aðila í samfélaginu og kom fram ekki síst í umsögnum í fyrra, þ.e. að gerð sé meðferðar- og vistunaráætlun sem skal endurskoða eftir atvikum meðan á afplánun stendur. Ég tel þetta ákvæði mjög til bóta. En ég ítreka að mjög mikilvægt er líka að þessu fylgi þeir fjármunir sem þarf til að framkvæma þetta sem skyldi. Auðvitað er þetta alger grundvöllur þess að fangar geti fengið viðunandi meðferð eða viðeigandi undirbúning þess að fara út í samfélagið aftur þegar þar að kemur. Mikilvægt er að þessu fylgi þeir fjármunir sem til þarf því að auðvitað kostar þetta allt saman peninga.

Það er líka eitt ákvæði í 17. gr. sem ég vildi aðeins koma inn á sem ég tel líka vera af hinu góða. Það er tekið fram að við upphaf afplánunar skuli afhenda fanga og kynna, á því tungumáli sem hann skilur — það er búið að koma því í lögin að erlendir fangar eigi rétt á því að þeim séu kynnt réttindi sín á því tungumáli sem þeir skilja. Þetta er mikilvægt að hafa í lagatextanum.

Eitt ákvæði var í 21. gr. þar sem heimilað er að taka þóknun fyrir ástundun vinnu eða náms í fangelsi og dagpeninga fanga til greiðslu á skaðabótum eða öðrum útgjöldum sem fangi verður ábyrgur fyrir meðan á afplánun stendur. Það var þannig í fyrri útgáfu að taka mátti 70% af þóknun eða dagpeningum fanga upp í svona tjón eða sem nokkurs konar skaðabætur. Það hefur heldur verið dregið úr þessu í þessu frumvarpi. Heimilt er að taka núna samkvæmt frumvarpinu helming af þóknuninni og 25% af dagpeningunum. Miðað við það hversu rýr þessi þóknun er eða dagpeningar þá held ég að þetta orki enn þá tvímælis jafnvel þó það hafi verið lækkað. Þó er vissulega betra að lækka þetta. En mér finnst orka tvímælis enn að hafa þetta allt að 50% sem megi gera upptækt í þessu skyni og vil skoða það betur.

Annað ákvæði er í 23. gr. um dvöl ungbarna í fangelsum. Þar er kveðið á um það núna að ef kona eigi ungbarn við upphaf afplánunar, eða fæði barn í afplánun, þá megi heimila henni í samráði við barnaverndarnefnd að hafa það hjá sér í fangelsi. Áður var einungis talað um að tilkynna skyldi þetta barnaverndarnefnd. Þetta tel ég æskilegt því að auðvitað er það barnaverndarmál að kona fái að hafa með sér barn í fangelsi og þarf að ákveða það í samráði við slík yfirvöld. Ég held að það sé eðlilegt.

Heilmikið hefur verið unnið í kaflanum um réttindi og skyldur fanga. Það er kannski sá kafli sem var hvað mest gagnrýndur og talið að algjörlega væri sneitt hjá sjálfsögðum mannréttindum fanga í fyrri útgáfu og þetta hefur verið heilmikið bætt í þessari útgáfu. Í 33. gr. um heimsóknir m.a. er búið að koma inn ákvæðum um að rökstyðja skuli ákvarðanir um að banna heimsóknir og að það skuli gert skriflega. Þetta er mjög mikilvægt. Það er búið að draga úr ákvæðinu um að heimila megi líkamsleit á þeim sem heimsækja fanga. Það er búið að taka út ákvæði um að það megi heimila á þeim líkamsrannsókn. Þó að ég sé enn ekki sannfærð um að eðlilegt sé að heimila líkamsleit á þeim sem heimsækja fanga þá er a.m.k. bætt úr með því að ekki skuli vera heimilt líka að gera líkamsrannsókn. Reyndar er komið inn ákvæði um og gert að skilyrði að heimsóknargestur skuli samþykkja slíka leit. Það er af hinu góða. En væntanlega er það þó eigi að síður þannig að hægt er að banna heimsóknina ef hann ekki samþykkir slíkt. Þetta ákvæði tel ég að við þurfum að skoða aðeins betur.

Í 34. gr. er fjallað um fyrirkomulag heimsókna og að forstöðumanni fangelsis beri að skipuleggja aðstæður þannig að börn geti komið með í heimsóknir og að þeim sé sýnd nærgætni. Þetta tel ég mjög jákvætt og kannski ákvæði sem ber svolítið vott um þann nýja tón sem er sleginn í þessu frumvarpi.

Ég vildi aðeins koma inn á símtöl. Kveðið er á um rétt fanga til að eiga símtöl við fólk utan fangelsa á þeim tímum sem reglur fangelsisins segja til um. Við í hv. allsherjarnefnd heimsóttum fangelsi í fyrra og ég verð að segja það fyrir mig að mér þóttu reglurnar sem þar eru settar um símatíma fanga og heimildir þeirra til að hringja í aðstandendur sína t.d. vera óþarflega takmarkaður. Reyndar fannst mér ýmislegt annað, t.d. varðandi útivistartíma, heimildir til að fara í líkamsrækt og í ýmsa uppbyggilega starfsemi vera kannski allt of strangt. Ég vona að með þeim nýja tóni sem við heyrum sleginn í þessu nýja frumvarpi verði kannski tekið líka á þeim málum því að það snýr vissulega líka að því að gera fanga kleift að vera betur undir það búinn að koma út í samfélagið að hann fái að stunda uppbyggilega starfsemi eins og t.d. líkamsrækt í fangelsinu eins og kostur er.

Ég vil gjarnan koma inn á fjölmörg fleiri atriði en tímans vegna er mér ekki unnt að gera það nú. En ég segi enn og aftur, virðulegi forseti, að hv. allsherjarnefnd mun skoða þetta frumvarp betur og við fáum væntanlega aftur umsagnaraðila til að gefa okkur álit á því sem þar kemur fram og þá mun ég áskilja mér rétt til að fara frekar yfir þau atriði síðar við 2. umr. málsins.