131. löggjafarþing — 40. fundur,  26. nóv. 2004.

Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

320. mál
[13:09]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get ekki annað en endurtekið það sem ég sagði áðan að ég tel að þessu sé ágætlega fyrir komið stjórnsýslulega séð. Það er stjórn sem ræður forstjóra og hann heyrir þess vegna ekki beint undir ráðherra. Ég hef satt að segja ekki heyrt þá gagnrýni áður sem fram kemur hjá hv. þingmanni, að það orki eitthvað tvímælis að Fjármálaeftirlitið sé sjálfstætt og lúti ekki stjórn ráðherra eða ráðuneytis. Ég tel að þessu sé ágætlega fyrir komið svona og veit ekki eiginlega hvað hv. þingmaður er með í huga þegar hann kemur fram með þessa gagnrýni.