131. löggjafarþing — 40. fundur,  26. nóv. 2004.

Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

320. mál
[13:50]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er alls ekki að gera því skóna. (Viðskrh.: Jú, það er einmitt það sem þú ert að gera.) Ég er að benda á stjórnsýslulega stöðu Fjármálaeftirlitsins sem lýtur stjórn sem hæstv. viðskiptaráðherra hefur skipað. Ég hef bent á stöðu annarra stofnana, ég hef bent á hver urðu örlög Þjóðhagsstofnunar, ég hef bent á að menn báru gæfu til þess að flytja Ríkisendurskoðun til Alþingis. Ég hef bent á hve það hefur verið mikið skjól fyrir umboðsmann Alþingis að starfa á þess vegum. Til þess að tryggja fullan og öruggan trúnað á þessum markaði er Fjármálaeftirlitið best komið þar. Ráðherrann hefur verið hvað umsvifamestur aðili á peningamarkaðnum í umskiptum á fjármálamarkaðnum á undanförnum árum og þess vegna er mikilvægt að ekki séu stjórnsýsluleg tengsl á milli eftirlitsaðilanna og þess aðila sem er hvað umsvifamestur á markaðnum hvað það varðar.