131. löggjafarþing — 40. fundur,  26. nóv. 2004.

Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

320. mál
[14:12]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég ætlaði aðallega í ræðustólinn til að ræða um stöðu Fjármálaeftirlitsins í framhaldi af ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar og taka undir þau sjónarmið sem hann lýsti. Ég vildi líka ræða pínulítið um stöðu Fjármálaeftirlitsins og samband þess við framkvæmdarvaldið. Ég hlýt að taka undir með hv. síðasta ræðumanni, hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, að það eru full efni til þess að nota þetta tækifæri og önnur sem bjóðast til að ræða dálítið um stöðuna í fjármálaheiminum og þróun, t.d. hvað varðar útlán og stöðu peningakerfisins, húsnæðislánakerfisins og bankastofnananna.

Mér hefur fundist Fjármálaeftirlitið, svo að ég orði það eins kurteislega og ég tel mig geta, mjög hógvært í ummælum sínum um slíka hluti undanfarin missiri. Ég held að því verði auðveldlega fundinn staður að Seðlabankinn hefur þó tekið á sig meiri rögg á köflum í ummælum sínum og athugasemdum á undanförnum missirum en Fjármálaeftirlitið. Þessir tveir aðilar eiga að starfa saman, hafa lögbundna skyldu til að hafa með sér samvinnu um verkefni hvor annars. Það er eðlilegt því að Fjármálaeftirlitið er dagsdaglega að fylgjast með hlutum sem Seðlabankinn þarf að hafa yfirsýn yfir þegar hann metur heildarstöðuna og beitir stjórntækjum sínum.

Ég sé að vísu að í þessari skýrslu sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir vitnaði einmitt í og er fylgiskjal eru ummæli, t.d. á bls. 28 um fjármálamarkaðinn, þar sem vissulega er lýst áhyggjum. Bent er á það, sem eru ekki ný sannindi, að í kjölfar hraðrar útlánaaukningar megi búast við auknum útlánatöpum og að það sé einnig áhyggjuefni að verulegur hluti þessarar útlánaaukningar sé fjármagnaður með erlendum lántökum og að hröð útlánaaukning sé enn fremur einn af áhættuþáttum sem geta verið undanfari erfiðleika í fjármálakerfinu.

Það leynist kannski ýmislegt á bak við þessar setningar en þetta er allt kurteislega orðað. Þetta er talið þarna upp og þarna eru öll hættumerkin til staðar, þetta er allt þarna, hröð útlánaaukning, að miklu leyti fjármögnuð með erlendum lánum og sennilega mætti bæta því við sem Seðlabankinn vakti sérstaklega athygli á í fyrra að stór hluti þessara erlendu lána er á skammtímakjörum. Það hefur að vísu eitthvað lagast, m.a. vegna umvandana Seðlabankans um áramótin síðustu en þá var ískyggilega stór hluti af nýjum erlendum lánum sem bankarnir höfðu veitt inn í landið fjármagnaður á 3–6 mánaða kjörum. Stærstur hluti 300 milljarðanna sem bankarnir dældu inn í hagkerfið á síðasta ári í nýju erlendu lánsfé gjaldféll á þessu ári eða þurfti að endurfjármagnast innan ársins sem í hönd fór. Þar finnst mér t.d. að Fjármálaeftirlitið mætti nú líka láta í sér heyra.

Af því að hér voru nefndir sparisjóðirnir og þá bar á góma í orðaskiptum hv. þm. Jóns Bjarnasonar og hæstv. ráðherra, velti ég því líka fyrir mér hvort Fjármálaeftirlitið standi vaktina í þeim efnum eins og ég tel að löggjafinn hafi ætlast til þegar hann reyndi ítrekað með lagabreytingum að standa vörð um sparisjóðina sem sparisjóði. Hvað er að gerast í Sparisjóði Hólahrepps og hvað er að gerast í SPRON? Er Fjármálaeftirlitið að standa vaktina þar eins og löggjafinn ætlaðist í raun og veru til? Ég hef efasemdir um það.

Það er alveg með ólíkindum finnst mér ef fjármálaráðuneytið skrifar upp á að menn geti fundið leið fram hjá reglunni um að enginn skuli fara með meira en 5% atkvæðamagn í sparisjóðum, sem var ætluð til þess að tryggja að menn söfnuðu ekki saman eignarhlutum. Eða muna menn ekki deilurnar um uppkaupin og samþjöppunina? Hvað ætluðu menn að gera til þess að verjast því? Jú, tryggja að enginn einn aðili gæti ráðið meiru en 5% í sparisjóði og þó að hann ætti meira í honum yrði afgangurinn af eignarhlutnum að verða óvirkur. En svo fáum við fréttir af því, að talið er með blessun Fjármálaeftirlitsins, að menn séu búnir að finna sér leiðir fram hjá þessu. Hvað segir hæstv. viðskiptaráðherra um þetta?

Það er ekki að hafa óeðlileg afskipti af störfum Fjármálaeftirlitsins þótt hæstv. viðskiptaráðherra hafi skoðun á því hvort kerfið virki í samræmi við lög, því á meðan Fjármálaeftirlitið heyrir undir viðskiptaráðherra ber viðskiptaráðherra hina stjórnskipulegu ábyrgð á því að hlutirnir séu í lagi. Það á ekkert skylt við það að ráðherra á að sjálfsögðu ekki að segja Fjármálaeftirlitinu fyrir verkum um afstöðu til einstakra mála. Það vitum við og um það erum við öll sammála að þannig viljum við ekki hafa það.

Mér finnast menn grauta þessu stundum dálítið saman. Hæstv. ráðherrar tala stundum eins og að vegna þess að þeir eigi að virða sjálfstæðar faglegar niðurstöður og ákvarðanir eftirlitsaðilanna í einstökum málum geti þeir þegar þeim hentar látið eins og þeim komi starfsemin ekki við, hún sé bara einhvers staðar úti í bæ og þeim óviðkomandi. Það er ekki þannig. Þetta er alveg skýrt í lögunum.

Lögin heyra undir ráðherrann, ráðherrann skipar Fjármálaeftirlitinu stjórn, að vísu er einn af þremur samkvæmt tilnefningu en ráðherrann ræður hinum tveimur stjórnarmönnunum og stjórnin hefur yfirumsjón með starfsemi Fjármálaeftirlitsins. Undir stjórnina á stofnunin eða forstjórinn að bera mikilvægustu ákvarðanir. Þannig er það í lögunum. Varastjórnin er skipuð með sama hætti. Ráðherrann skipar kærunefnd, að vísu alla samkvæmt tilnefningu frá Hæstarétti en ráðherra setur henni reglugerð eða hefur til þess heimildir í lögum að útfæra nánar starfsemi kærunefndarinnar með reglugerð. Ráðherrann hefur því þarna mjög mikið um málin að segja.

Þá er komið að spurningunni með það hvar Fjármálaeftirlitið eigi að vistast, hvar það eigi að eiga heima. Ég held að taka eigi til mjög rækilegrar skoðunar að bæði Fjármálaeftirlitið og Samkeppnisstofnun færist undir Alþingi. Valin verði sama leið og var með Ríkisendurskoðun og eins þegar embætti umboðsmanns Alþingis var stofnað að þessar mikilvægu undirstöðueftirlitsstofnanir og réttargæslustofnanir, eins og umboðsmannsembættið er fyrir borgarana í landinu gagnvart stjórnsýslunni, séu algerlega sjálfstæðar en í skjóli af Alþingi.

Ég vek t.d. athygli á því að það skiptir miklu máli að þær stofnanir séu algerlega ósnertanlegar hvað varðar fjárhagslega burði til að sinna verkefnum sínum. Þá er betra að fjárveitingavaldið hafi það alfarið í höndum sínum og það fari ekki krókaleiðina í gengum ráðuneyti í fjárlagavinnuna og í fjárlagafrumvarp fjármálaráðherra, því auðvitað er þar strax kominn áhrifavaldur þar sem er stýring ráðuneytanna eða framkvæmdarvaldsins á því að taka við óskum stofnunar af þessu tagi um fjárveitingar og matreiða þær í fjárlagafrumvarpið eftir sínu höfði.

Hæstv. ráðherra brást heldur illa við og spurði hv. þm. Jón Bjarnason að því hvort hann væri að gera því skóna að ráðherra skipaði Fjármálaeftirlitinu beint fyrir verkum hvað varðaði afstöðu til einstakra mála eða afgreiðslu á einstökum hlutum. Svo er að sjálfsögðu ekki. Menn halda ekki slíku fram nema sannanlegt sé að svo sé, að sjálfsögðu, því það væru mjög alvarlegar ásakanir. En — og það held ég að sé það sem við ræðum — spurningin er auðvitað um það hvort þarna geti ekki eftir sem áður verið óheppilegt orsakasamband sem byggir ósköp einfaldlega á þeirri stöðu sem Fjármálaeftirlitið upplifir sig í gegnum það að ráðherra skipar stjórnina, ræður meiri hluta hennar, að ráðherra hefur yfirumsjón og ábyrgð með framkvæmd laganna sem stofnunin starfar eftir, að fjárveitingarnar koma þessa leið og fleira mætti þar til tína.

Einnig er Fjármálaeftirlitið oft að glíma við viðfangsefni sem eru mjög pólitísk í eðli sínu og tengjast stefnu stjórnvalda á hverjum tíma. Auðvitað er einkavæðingin í bankakerfinu hápólitískt viðfangsefni og þegar Fjármálaeftirlitið fjallar um það eru menn ekki svo einangraðir frá þjóðfélaginu þar á bæ að þeir viti ekki að þeir eru með í höndunum eitt af pólitískum stefnumálum ríkisstjórnar. Þeir eru með það. Væru þeir þá ekki betur komnir í skjóli af Alþingi? Jú.

Það er stundum sagt þegar verið er að ræða um áhrif eigenda fjölmiðla á ritstjórnarstefnu og hvernig menn geti orðið undir áhrifum, án þess að þeim sé sagt fyrir verkum, að sjálfsritskoðunin sé jafnvel hættulegust. Það eru hinu sálrænu, óbeinu áhrif, vitneskjan um að vera eigandi einhvers eða vitneskjan um að vera þrátt fyrir allt að starfa undir hatti einhvers. Menn eru með pólitísk viðfangsefni í höndunum komin beint frá hinu sama stjórnvaldi og menn sækja umboð sitt til með vissum hætti. Þá verður til hættan á einhvers konar sjálfsritskoðun eins og sagt er stundum í blaðaheiminum.

Þessi fyrirbæri geta með nákvæmlega sama hætti legið í hlutum eins og því þegar eftirlitsstofnanir sem þurfa og eiga að vera algerlega sjálfstæðar heyra samt undir framkvæmdarvaldið. Það er þetta sem við eða ég a.m.k. tel að sé fullgilt að benda á og á hvorki að lesa meira né minna út úr þeim orðum en efni standa til. Þetta er bara svona, þetta er viðurkennt og m.a. af þeim ástæðum reyna menn með ýmsum hætti í löggjöf að búa þannig um að aðilar af þessu tagi séu sem allra sjálfstæðastir og ósnertanlegastir.

Hvers vegna er t.d. ekki hægt að segja upp hæstaréttardómurum? Af hverju er gengið eins frá ráðningarkjörum þeirra og raun ber vitni? Jú, til þess að framkvæmdarvaldið geti ekki haft þá undir hnefanum. Þegar einu sinni er búið að meta þá hæfa og skipa þá í Hæstarétt eru þeir ósnertanlegir þar. Þetta er ekkert út í loftið. Þetta er af ástæðum sem eru augljósar þegar farið er að hugleiða það.

Ég held að fara megi sannarlega betur yfir lögin um Fjármálaeftirlitið og sérstaklega stjórnsýslulega stöðu þess eins og lagt er reyndar til í þingsályktunartillögu, 45. máli þessa þings, sem hv. þingmenn Jón Bjarnason og Ögmundur Jónasson hafa flutt.

Herra forseti. Ég ætla tímans vegna og aðstæðna ekki að hafa orð mín fleiri. Ég áskil mér þó allan rétt til þess með svipuðum hætti og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir gerði áður, að nota tækifærið ef til vill við síðari umræður og ræða betur þessa ítarlegu skýrslu sem er fylgigagn með frumvarpinu. Ég tel reyndar að það sé algerlega óumflýjanlegt að fram fari á þingi einhvern tíma eftir að Seðlabankinn birtir álit sitt í byrjun desember rækileg umræða um stöðuna í efnahagsmálunum. Ég held að það sé alveg óumflýjanlegt og er eiginlega alveg viss um að það verða meira en næg tilefni í framhaldi af skýrslu Seðlabankans einni og sér þó ekkert annað komi til, en þar er af miklu að taka.

Þó að við séum að ræða þetta til hliðar og meðfram í umræðum um fjárlagafrumvarp eða fjáraukalög og önnur slík eru þar líka undir fjölmörg efnisatriði af öðrum toga sem menn eru eðlilega að ráðstafa tíma sínum í að ræða. Þess vegna held ég að stefna eigi að því að hafa eina rækilega umræðu um þjóðhagsmálin og efnahagsmálin einhvern tíma í desember áður en þing lýkur störfum, hvort sem það er beint í tengslum við frumvarpið og skýrsluna sem því fylgir eða umræða utan dagskrár eða hvernig sem því yrði fyrir komið.

Ég læt þetta nægja, frú forseti.