131. löggjafarþing — 40. fundur,  26. nóv. 2004.

Raforkulög.

328. mál
[15:42]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir ágæta ræðu, en það verður að koma fram við umræðuna að við erum samstjórnarmenn í Landsvirkjun sem er eins og kunnugt er stærsti orkuframleiðandi á þessum markaði.

Ég tek undir orð hv. þm. um ríkishlutafélög og stöðu þeirra. Vegna orða hv. þm. um þingsályktunartillögu vek ég athygli á því að við höfum nokkrir þingmenn undir forustu Guðmundar Árna Stefánssonar þegar flutt lagafrumvörp sem lutu að því að fyrirtæki í opinberri eigu skuli veita upplýsingar um sinn rekstur, en þau hafa því miður ekki fengið undirtektir í þinginu af hálfu stjórnarmeirihlutans og kannski ekki mikil von til þess að því máli fáist hreyft, því miður, því ég held að það skjól sem menn hafa með því að breyta ríkisfyrirtækjum í hlutafélög og leyna þar almenning upplýsingum sé mjög til óþurftar í opinberum rekstri á Íslandi.

En ég vildi spyrja hv. þm. hvort hún telji ekki algerlega útilokað að um raunverulega samkeppni geti orðið að ræða á raforkuframleiðslumarkaði meðan því er þannig háttað að Reykjavíkurborg á annars vegar næststærsta orkuframleiðandann, Orkuveitu Reykjavíkur, og hins vegar nær helmingshlut í Landsvirkjun, stærsta orkuframleiðandanum.