131. löggjafarþing — 40. fundur,  26. nóv. 2004.

Raforkulög.

328. mál
[15:46]

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef kannski ekki talað nógu skýrt. Þegar ég ræði um að breyta eignarhaldi á Landsvirkjun í þá veru að það ruggi bátnum á ég við það að hlutur ríkisábyrgðar og ábyrgðar Reykjavíkurborgar á skuldbindingum fyrirtækisins minnki að sama skapi. Ef hv. þm. er að tala um það sem mér heyrist hann vera að gera, að ríkið eignist og eigi alla hluta í Landsvirkjun, mun sú ríkisábyrgð að sjálfsögðu standa.

Fari hins vegar hluti af fyrirtækinu á almennan markað mun væntanlega draga úr ábyrgðum sem því nemur. Það hefur sýnt sig að slíkar breytingar á eignarhaldi geta leitt til verri lánskjara vegna minnkandi lánshæfni. Þannig er það að Standard & Poor’s sem er viðurkennt lánsmatsfyrirtæki hefur gefið út yfirlýsingu um að án ríkisábyrgðarinnar væri lánshæfi Landsvirkjunar allt annað og minna en það er núna. Við vitum hvað þýðir, það þýðir einfaldlega dýrari lán. Nóg er nú samt.