131. löggjafarþing — 40. fundur,  26. nóv. 2004.

Raforkulög.

328. mál
[15:59]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í samræmi við samkomulag sem gert var á árinu 1996, minnir mig, var niðurstaðan sú fyrir síðustu áramót, fyrir tæpu ári, að eigendur Landsvirkjunar mundu koma sér saman um það hver niðurstaðan yrði um framtíðaráform í sambandi við Landsvirkjun, t.d. í hvaða rekstrarformi fyrirtækið skyldi rekið. Sú vinna hefur verið í gangi, nefnd verið að störfum sem hefur ekki lokið störfum en henni miðar allvel. Ég tel því ekki langt í að hægt verði að greina frá einhverjum niðurstöðum í þeim efnum. Þetta er hins vegar mjög stórt mál og tekur sinn tíma að vinna að því.

Varðandi Hitaveitu Suðurnesja þá er ég alveg sammála hv. þingmanni um að það er ástæða til að huga að því að selja þennan hlut. Það er ekki ástæða til þess lengur að ríkið eigi hlut í Hitaveitu Suðurnesja og það er nokkuð sem hefur verið til umfjöllunar í ráðuneytinu.