131. löggjafarþing — 40. fundur,  26. nóv. 2004.

Raforkulög.

328. mál
[16:01]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fagna orðum hæstv. ráðherra um sölu á eignarhlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja enda fluttum við þingmenn Samfylkingarinnar tillögu um það við afgreiðslu fjárlaga á síðasta ári.

Ég vildi spyrja ráðherrann hvort það sé markmið hennar í viðræðunum við borgaryfirvöld að losa um eignarhlut Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun og, ef svo er, hvort líkur séu á því að það markmið nái fram að ganga.

Í ljósi þess hversu skammt er í að lögin eiga að taka gildi og hve mikill dráttur hefur verið á þeim reglugerðum og gjaldskrám sem hér eiga við vildi ég sömuleiðis spyrja hvort ráðherrann telji þurfa að koma til þess að fresta gildistöku einstakra ákvæða í lögunum þannig að orkufyrirtækjunum gefist tóm og tækifæri til að aðlaga gjaldskrár sínar og viðskiptasamninga hinu nýja umhverfi.