131. löggjafarþing — 40. fundur,  26. nóv. 2004.

Raforkulög.

328. mál
[16:05]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er engin ástæða til að tala um mikinn kostnað í þessu sambandi. Það verður enginn nýr kostnaður til í raun í kerfinu. Það kostar eitthvað að breyta yfir í þetta fyrirkomulag en ég er sannfærð um að raforkufyrirtækin og raforkugeirinn almennt verður betur rekinn eftir þessa breytingu en áður.

Talað hefur verið um 3% arðsemi. Það er ekki hægt að hafa það öllu lægra og er ekki hægt að reka fyrirtæki á núlli. Þess vegna er náttúrlega um eins litla arðsemi að ræða og hægt er að komast af með held ég.

Ég ætla ekki að fullyrða neitt um raforkuverðið í nýja kerfinu. Reynsla margra annarra landa er sú að það hafi lækkað. Sums staðar hefur það staðið í stað og annað slíkt en það hefur hins vegar lækkað meira til fyrirtækja. Það hefur sýnt sig í þeim löndum þar sem við höfum skoðað þessi mál.

Það getur vel verið að hjá einhverjum orkufyrirtækjum lækki verðið meira en annars staðar, t.d. eru teknar ákveðnar kvaðir af Rarik sem það fyrirtæki hafði áður í sambandi við félagslegan kostnað eða óarðbærar einingar sem ríkið tekur nú inn á fjárlög, Það nemur 230 millj. kr.

Auk þessa er meiri jöfnun í kerfinu en var áður sem getur þýtt örlitla hækkun á þessu svæði. En ég held að það sé ekki erfiðara en svo að það sé teljandi í einhverjum hundraðköllum á ári. Þannig verður ekki nein stórkostleg breyting. Það eru ýmsar svona breytingar sem eiga sér stað en þær munu ekki verða stórkostlegar.

Strax um áramót geta fyrirtæki sem kaupa meira en hundrað kílóvött valið sér orkufyrirtæki þannig að það eru bara nokkrir dagar þangað til fyrstu afleiðingar af þessum breytingum koma í ljós.