131. löggjafarþing — 41. fundur,  29. nóv. 2004.

Stuðningur við stríðið í Írak.

[15:05]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Það er alveg ljóst, hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson, að það er engin breyting á stefnu íslenskra stjórnvalda að því er varðar Írak. Við fögnum því að Saddam Hussein er farinn frá. Við styðjum lýðræðisuppbygginguna í Írak og við styðjum að vinna á grundvelli samþykktar Sameinuðu þjóðanna nr. 1546, um endurreisn í Írak. En ég held að það sé kominn tími til að Samfylkingin geri grein fyrir hvaða stefnu hún hefur í sambandi við þessi mál. (Gripið fram í: Hún er mjög skýr.) Er hún skýr já? Þá spyr ég: Styður Samfylkingin lýðræðisuppbyggingu í Írak? Styður Samfylkingin endurreisn í Írak? Er Samfylkingin sammála sósíaldemókrötum í Danmörku? Á fimmtudaginn var atkvæðagreiðsla um málefni Íraks á þinginu í Danmörku. 92 þingmenn studdu það sem Danir eru að gera í Írak, 15 voru á móti. Hvaða flokkar skyldu það vera? Þeir flokkar sem styðja ríkisstjórnina í Danmörku. Það eru sósíaldemókratar og Radikale venstre.

Eitt sinn var sú tíð að lýðræðisflokkarnir á Íslandi studdu það sem vestrænar þjóðir voru að gera. Framsóknarflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn og Alþýðuflokkurinn. (Gripið fram í: Hvaða stríð var það?) (Gripið fram í: Kosovo.) Nú er orðið ljóst að gamla Alþýðubandalagið hefur enn einu sinni náð yfirhöndinni í Samfylkingunni að því er varðar utanríkismál. Á sama tíma og helstu samstarfsþjóðir okkar í utanríkismálum, Bretar, Bandaríkjamenn og Danir hafa ákveðið að ljúka starfinu í Írak að því er varðar lýðræðisuppbyggingu þar, að því er varðar endurreisnina þar, leggst Samfylkingin á móti alveg eins og gamla Alþýðubandalagið hefði gert.