131. löggjafarþing — 41. fundur,  29. nóv. 2004.

Stuðningur við stríðið í Írak.

[15:23]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Ég heyri á þingmönnum Samfylkingarinnar að þeir vilja fyrst og fremst ræða um fortíðina í þessum efnum. Gott og vel, þeir mega ræða hana mín vegna. Það sem skiptir hins vegar máli er hvaða afstöðu þingmenn Samfylkingarinnar hafa gagnvart því sem nú er að gerast í Írak. Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson sagði að flokkurinn styddi ályktun 1546 frá Sameinuðu þjóðunum sem gerir ráð fyrir viðveru liðsins í Írak, liði Bandaríkjanna, Breta og Dana. Á þá að skilja það svo að Samfylkingin styðji lýðræðisuppbygginguna í Írak og veru hersins í Írak? Það lá fyrir þegar ríkisstjórnin tók afstöðu til þessa máls á sínum tíma að við lofuðum því að styðja uppbyggingu í Írak.

Samfylkingin tönnlast stöðugt á því að það eigi að taka okkur af einhverjum lista. Hvað þýðir það að taka sig af þeim lista? Það þýðir að láta af stuðningi við uppbygginguna í Írak … (Gripið fram í.) láta … Vita ekki þingmenn Samfylkingarinnar að innrásin er löngu búin? (Gripið fram í.) Ef við tækjum þá ákvörðun núna værum við taka til baka stuðning okkar við uppbygginguna í Írak. (Gripið fram í.)

Ef Samfylkingin styður það vitum við það og þá eru þingmenn Samfylkingarinnar að segja að þeir hafi svipaða afstöðu til málsins og sósíaldemókratar í Danmörku. (Gripið fram í.) En er ekki tími kominn til, hv. formaður Samfylkingarinnar, að þú komir fram með þessa skoðun? Það er náttúrlega út í hött að halda því fram að einhver sé hræddur við það að mæta formanni Samfylkingarinnar hér í þingsal.