131. löggjafarþing — 41. fundur,  29. nóv. 2004.

Skipting tekna milli ríkis og sveitarfélaga í ljósi nýgerðra kjarasamninga.

[15:29]

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Fjárhagsleg staða sveitarfélaganna er ákaflega alvarleg um þessar mundir. Á síðasta ári nam samanlagt tap á rekstri þeirra um 2,6 milljörðum kr. Þá var 71 sveitarfélag rekið með tapi. Staðan á 23 þeirra var þannig að í október taldi eftirlitsnefnd sveitarfélaga ástæðu til að skoða fjárhagsstöðu þeirra nánar.

Sveitarfélögin kvarta nú sáran undan því að það gangi ekki neitt í samningum við ríkið í tekjustofnanefnd og að af ríkisins hálfu séu þar einungis embættismenn sem hafi hvorki leiðsögn né raunverulegt umboð hæstv. ráðherra til að semja. Eitt af mikilvægustu verkefnunum sem við stjórnmálamenn stöndum frammi fyrir er að stækka sveitarfélögin og flytja til þeirra frekari verkefni vegna þess að það felur í sér aukna valddreifingu og aukið lýðræði. Ég óttast hins vegar að fólkið okkar í sveitarstjórnunum treysti ekki lengur ríkisvaldinu eftir skæklatogið um tekjuskiptinguna og að það sé því um þessar mundir að draga nokkuð hratt úr möguleikunum á því að kjósa um frekari sameiningar.

Hæstv. félagsmálaráðherra sagði á aukalandsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga að þau yrðu að líta í eigin barm og kanna hvað ylli því að útgjöld þeirra yxu hraðar en tekjur. Þetta er erfitt að skilja öðruvísi en svo að hæstv. ráðherra telji að það sé í besta falli slök fjármálastjórn og í versta falli óráðsía sem valdi þessari bágu fjárhagsstöðu sveitarfélaganna núna. Ja, heyr á endemi. Er þetta sami Árni og fyrir örfáum missirum kvartaði undan því að skattkerfisbreytingar ríkisins drægju bótalaust úr tekjum sveitarfélaganna? Sá Árni sem þau vísu orð mælti var varaformaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og ég spyr: Getur hæstv. ráðherra nokkuð upplýst um það hvar sá ágæti Árni er niður kominn? Varla er það sá sami Árni og situr þarna í stól félagsmálaráðherra og ber nú ábyrgð á málefnum sveitarfélaga.

Staðreyndin er sú, herra forseti, að ríkisstjórn og Alþingi hafa breytt lögum sem rýra núna fjárhagslega stöðu sveitarfélaganna og þau hafa gert það án þess að bæta þeim upp kostnaðinn. Lagabreytingin sem leiddi til þess að það varð auðveldara en áður að stofna einkahlutafélög var að sönnu í sjálfu sér jákvæð en hún kostaði sveitarfélögin í tekjum 1,2–1,4 milljarða. Auknar húsaleigubætur leggja sig á hundruð milljóna. Kröfur um aukna þjónustu í grunnskólum hafa leitt til meiri kostnaðar en við áttum von á og gerðum ráð fyrir við yfirfærsluna. Svo eru ýmsar aðrar breytingar sem ýmsir hv. þingmenn eins og hv. þm. Gunnar Birgisson hafa talið hér upp sem má rekja til lagaákvæða sem hafa valdið útgjöldum. Auðvitað viðurkenni ég að þar er ekki bara við núverandi ríkisstjórn að sakast. Ef hæstv. ráðherra tæki sig þó til og reiknaði þetta allt væri hann líklega kominn að þeirri upphæð sem þarf til að reka sveitarfélögin á sléttu núna. Ríkisvaldið er þess vegna beinlínis í skuld við sveitarfélög í landinu en bæði félagsmálaráðherra og fjármálaráðherra láta eins og þeir séu staddir í miðju leikriti eftir Dario Fo, og þeir arga bara: Við borgum ekki, við borgum ekki.

Á sama tíma og ríkisstjórnin reynir að kaupa sér fylgi með því að sáldra út loforðum um skattalækkanir upp á 39 milljarða á þessu kjörtímabili er varla hægt að láta túskilding með gati renna til sveitarfélaganna. Hvernig eiga sveitarfélögin að bregðast við þessu, herra forseti?

Ég óttast að skilningsleysi og níska ríkisvaldsins gagnvart sveitarfélögunum neyði þau til að hækka gjöld og álögur eða grípa til niðurskurðar á velferðarþjónustu sinni. Það skal þá vera á ábyrgð hæstv. ríkisstjórnar.

Herra forseti. Nýlega voru gerðir samningar við grunnskólakennara og það verður að segjast að staða sveitarfélaganna mun ekki batna með þeim kjarasamningum sem eru fram undan í vetur. Hv. þm. Gunnar Birgisson, formaður bæjarráðs í Kópavogi, reifaði fyrr í þessum mánuði fjárhagsstöðu sveitarfélaganna eins og hún kynni að líta út eftir samningalotu vetrarins ef ríkisstjórnin gerði ekkert, og hann sagði, með leyfi forseta:

„Ég óttast neyðarástand hjá sveitarfélögunum, neyðarástand eftir að menn verða búnir að fara í gegnum alla þessa kjarasamninga.“

Herra forseti. Það er ekki formaður Samfylkingarinnar sem mælir þessi orð. Það er einn helsti leiðtogi Sjálfstæðisflokksins á sveitarstjórnarstiginu sem mælir þessi varnaðarorð. Ég spyr þess vegna hæstv. félagsmálaráðherra: Telur hann ekki í ljósi stöðunnar að sveitarfélögin þurfi aukið fjármagn til að sinna lögboðnum verkefnum sínum? Telur hann ekki að það sé sanngjarnt að bæta sveitarfélögunum upp kostnað vegna lagabreytinga og aukinna verkefna? Hvenær ætlar hæstv. ráðherra að gera það og hvernig ætlar hann að gera það? Það eru spurningarnar sem brenna á vörum okkar í þessari umræðu hér í dag.