131. löggjafarþing — 41. fundur,  29. nóv. 2004.

Skipting tekna milli ríkis og sveitarfélaga í ljósi nýgerðra kjarasamninga.

[15:48]

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Sveitarfélögin á Íslandi hafa margoft rætt um það hve mikilvægt er að efla sveitarstjórnarstigið með því að sameina sveitarfélög. Bæði á 16. og 17. landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga var ályktað um þessi mál og þá var rætt um að hin frjálsa aðferð ætti að vera við lýði, þ.e. að sveitarfélögin ættu að sameinast með kosningum en ef árangur næðist ekki ætti að leita annarra leiða. Það verður auðvitað að túlka þetta sem svo að menn vilja reyna hina frjálsu aðferð en takist hún ekki komi til greina að setja lágmarkstölu, hækka hana og setja í lög þannig að sveitarfélögin sameinist þannig.

Hæstv. félagsmálaráðherra hefur unnið í þessum anda og reynt að efla sveitarstjórnarstigið með því að setja á stofn vinnu. Þar eru þrjár nefndir, þ.e. verkefnisstjórn, síðan er það nefnd sem vinnur að sameiningu sveitarfélaga og svo svokölluð tejustofnanefnd. Með því plani sem er búið að setja upp á að fækka sveitarfélögum allverulega eða niður í u.þ.b. 40.

Það er búið að vinna að þessum málum í geysilangan tíma og nú eru komnar góðar tillögur sem á að kjósa um í lok apríl. Það kemur í ljós að um 60 sveitarfélög hafa ekki bolmagn til að sinna sínum lögboðnu verkefnum á sviði fræðslu- og félagsmála án samvinnu við önnur sveitarfélög þannig að það er brýnt að sameina sveitarfélögin. Þannig getum við eflt allar byggðirnar á Íslandi. Þetta er mikið byggðamál.

Við verðum að hafa í huga að verið er að sameina fyrir íbúana en ekki fyrir ríkið, og ríkið hefur ákveðið að leggja fram háar upphæðir, 2,4 milljarða, til að efla sveitarfélögin í því að sameinast. Við þessa vinnu má segja að sum sveitarfélög hafi viljað setja vinnuna í þann farveg að spyrða saman sameiningarkosningarnar og niðurstöðu varðandi núverandi tekjustofna sveitarfélaga. Ég vara mjög við því. Ég tel að það sé svo mikið hagsmunamál að sameina sveitarfélög að sveitarfélögin eigi ekki að stoppa vinnuna af varðandi tekjustofnana. Auðvitað á að skoða þá og kannski er hægt að styrkja jöfnunarsjóð varanlega með upphæð. Það er búið að losa um 600 millj. nú þegar en það á ekki að spyrða þetta algjörlega saman.