131. löggjafarþing — 41. fundur,  29. nóv. 2004.

Skipting tekna milli ríkis og sveitarfélaga í ljósi nýgerðra kjarasamninga.

[16:01]

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður sagði að sterk sveitarfélög væru undirstaða sterkrar byggðar. Til að sveitarfélögin séu sterk teljum við að það þurfi að stækka þau til þess að hægt sé að flytja frekari verkefni til þeirra. Um þetta held ég að flestir þingmenn í þessum sölum séu sammála. Hæstv. ráðherra er sammála því líka.

Ég heyri hins vegar á þeim sveitarstjórnarmönnum sem ég hef rætt við að þeir eru orðnir svo úrkula vonar um að það sé hægt að fá skilning hjá framkvæmdarvaldinu fyrir því að verkefnaflutningnum þurfi að fylgja skynsamleg ráðstöfun fjár að þeir eru eiginlega búnir að fá upp í kok. Þeir eru ekki reiðubúnir í sama mæli og áður að ræða stækkun sveitarfélaga og þar með þennan flutning sem við teljum svo mikilvægan.

Mér fannst sem hæstv. ráðherra kæmi hérna með sitt gamalkunna plástrabox sem við erum farin að kannast við í þinginu. Hæstv. ráðherra ætlar að setja einn plástur upp á 100 millj. þarna, annan upp á 200 millj. þarna og þann þriðja upp á 300 millj. þarna. Samtals, þegar hann telur alla plástrana saman, er hann með í boxinu 600 millj. en það er ekki nóg. Það hrekkur fjarri því nógu langt til þess að það sé hægt að ná markmiði hæstv. ráðherrans.

Markmiðin voru hins vegar tvíþætt og ég fagna þeim. Markmiðið sem kom fram í ræðu hæstv. ráðherra var í fyrsta lagi að ljúka vinnu í tekjustofnanefndinni og hún átti m.a. að ræða bætur til sveitarfélaganna vegna skattkerfisbreytinganna sem hinn ungi varaformaður Sambands íslenskra sveitarfélaga talaði um hér fyrir nokkrum missirum, út af húsaleigubótum og út af ýmsu öðru. Síðan sagði ráðherra: Það er ekki hægt að ræða um varanlega breytingu á skiptingu tekna milli sveitarfélaga og ríkisvalds fyrr en það starf er frá.

Þá verð ég að spyrja hæstv. ráðherra: Er hann að opna á það hér að þegar tekjustofnanefndin hefur lokið sínu verki verði farið í að ræða varanlega breytingu á tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga?